Enski boltinn

Segir að Falcao fari ef Van Gaal verður áfram stjóri United

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Radamel Falcao fékk ekki tækifæri gegn Southampton á sunnudaginn.
Radamel Falcao fékk ekki tækifæri gegn Southampton á sunnudaginn. vísir/getty
Faustino Asprilla, fyrrverandi leikmaður Newcastle og kólumbíska landsliðsins í knattspyrnu, er ósáttur við hvernig Louis van Gaal, knattspyrnustjóri Manchester United, kemur fram við samlanda sinn Radamel Falcao.

Hann segir samband þeirra ónýtt og vill meina að Falcao verði ekki áfram á Old Trafford verði Hollendingurinn áfram við stjórnvölinn.

Falcao var ekki í leikmannahópi United í 1-0 tapinu gegn Southampton síðastliðinn sunnudag og var sagður hafa strunsað heim þegar honum var tilkynnt það. Kólumbíumaðurinn hafnaði þeim fréttaflutningi.

„Ef Van Gaal verður áfram fer Falcao. Ég held að samband þeirra sé nú þegar ónýtt. Falcao skilur að stjórinn vill ekki halda honum,“ segir Asprilla í viðtali við IB Times UK.

„Ég man þegar ég fór til Newcastle. Kevin Keegan vildi fá mig til liðsins. Hann studdi mig mikið en það er augljóst að Van Gaal treystir ekki Falcao.

„Það er sorglegt að sjá hvernig hann kemur fram við Falcao. Vandamálið er ekki Falcao heldur þjálfarinn. Falcao var meiddur fyrr á leiktíðinni en er búinn að sanna að hann er öflugur markaskorari.“

„Sannleikurinn er að ég veit ekki hvað Van Gaal er að reyna að gera hjá United. Ég held að bæði leikmennirnir og stuðningsmennirnir skilji ekki heldur hvað sé í gangi. Hann breytir svo miklu án þess að hafa ástæður fyrir því,“ segir Faustino Asprilla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×