Fótbolti

Asamoah Gyan greindist með malaríu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Asamoah Gyan.
Asamoah Gyan. Vísir/Getty
Asamoah Gyan, fyrirliði knattspyrnulandsliðs Gana, missir væntanlega af fyrsta leik þjóðar sinnar í Afríkukeppninni í dag því einn frægasti knattspyrnumaður Afríku hefur sýkst af malaríu.

Asamoah Gyan var lagður inn á sjúkrahús á laugardagskvöldið en það hjálpar þessum 29 ára sóknarmanni að sjúkdómurinn uppgötvaðist á frumstigi og hann hefur brugðist vel við fyrstu meðferð.

Gana mætir Senegal í fyrsta leik sínum í C-riðli Afríkukeppninnar sem fer fram þessa dagana í Miðbaugs-Gíneu.

Gyan hefur nú fengið að fara heim af spítalanum enda reyndist hann aðeins hafa fengið vægt einkenni af malaríu en læknalið Gana fylgist engu að síður mjög vel með honum.

Fjarvera Asamoah Gyan yrði mikið áfall fyrir þjálfarann Avram Grant sem er þekktastur fyrir að taka við af José Mourinho sem  knattspyrnustjóri Chelsea í september 2007.

Asamoah Gyan er markahæsti landsliðsmaður Gana frá upphafi og markahæsti afríski leikmaður heimsmeistarakeppninnar frá upphafi. Hann hefur skorað 6 mörk fyrir Gana á HM og 45 mörk í 86 landsleikjum fyrir Gana.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×