Fótbolti

Jafnteflisfaraldur í Afríkukeppninnni í fótbolta

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pierre-Emerick Aubameyang hjá Gabon.
Pierre-Emerick Aubameyang hjá Gabon. Vísir/AP
Það er ekki hægt að hafa þetta jafnara en eftir fyrstu umferðina í B-riðli Afríkukeppninnar en báðir leikirnir enduðu með 1-1 jafntefli. Afríkukeppnin hefur farið af stað með þremur jafnteflum í fyrstu fjórum leikjunum.

Gabon er eina liðið sem hefur fagnað sigri eftir fjóra fyrstu leikina á Afríkukeppninni í fótbolta sem fer fram þessa dagana í Miðbaugs-Gíneu en fyrsta umferðin er búin í A- og B-riðli og í dag fara fram fyrstu leikirnir í C-riðli.

Túnis komst í 1-0 á móti Grænhöfðaeyjum eftir mark frá Mohamed Ali Moncer á 70. mínútu en Heldon, leikmaður Sporting Lisbon í Portúgal, skoraði jöfnunarmarkið úr vítaspyrnu sem hann fékk sjálfur átta mínútum síðar.

Yannick Bolasie, leikmaður Crystal Palace, tryggði Austur-Kongó (áður Saír) 1-1 jafntefli á móti Sambíu með marki á 65. mínútu eftir að Given Singuluma hafði komið Sambíu í 1-0 strax á 2. mínútu.

Pierre-Emerick Aubameyang, leikmaður þýska liðsins Borussia Dortmund, og Malick Evouna tryggðu Gaban 2-0 sigur á Búrkína Fasó með marki í sitthvorum hálfleiknum. Heimamenn í Miðbaugs-Gíneu gerðu 1-1 jafntefli við Vestur-Kongó í fyrsta leik.

Í dag mætast Gana og Senegal annarsvegar og Alsír og Suður-Afríka hinsvegar í fyrstu leikjunum í C-riðli en á morgun hefst síðan keppni í D-riðli þar sem eru Fílabeinsströndin, Malí, Kamerún og Gínea.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×