Fótbolti

Viðar Örn þakkaði Fylki fyrir sig með peningagjöf

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Viðar Örn Kjartansson er Árbæjarliðinu þakklátur.
Viðar Örn Kjartansson er Árbæjarliðinu þakklátur. vísir/stefán
Viðar Örn Kjartansson, framherji Vålerenga og markahæsti leikmaður norsku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu, gaf Fylki um 200.000 krónur sem þakklætisvott fyrir það sem félagið gerði fyrir hann á hans tíma í Árbænum

Viðar Örn skoraði þrettán mörk fyrir Fylki í Pepsi-deildinni 2013 og var í kjölfarið keyptur til Vålerenga þar sem hann fór á kostum á fyrsta tímabili.

„Það er búið að vera viðburðaríkur tími síðan ég kvaddi Fylki og hélt á vit ævintýra í Noregi. Fyrsta tímabilið hjá Valerenga gekk vonum framar og má eflaust þakka góða tímabili mínu á árinu 2013 með Fylki,“ segir Viðar í bréfi til Fylkis á Facebook.

„Til að þakka fyrir mig ákvað ég í samráði við stjórn knattspyrnudeildar Fylkis að gefa félaginu minn hlut í greiðslu Valerenga til Fylkis nú í byrjun árs. Ég hef óskað eftir því að upphæðin renni beint inn í vinnu í afreksstarfi knattspyrnudeildar félagsins.“

Ásgeir Ásgeirsson, formaður knattspyrnudeildar Fylkis, sagði við Vísi að hlutur Viðars í vistaskiptunum til Noregs hafi verið um 200.000 krónur. Fínn peningur í erfiðan rekstur.

„Það er gaman að menn kunni að meta það sem var gert fyrir þá hjá félaginu og gaman að sjá menn þakka fyrir sig með þessum hætti,“ sagði Ásgeir Ásgeirsson við Vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×