Enski boltinn

Ákvörðun Lampard ekki vinsæl í New York

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Frank Lampard.
Frank Lampard. Vísir/Getty
Frank Lampard gladdi stuðningsmenn Manchester City með því að ákveða að klára tímabilið með liðinu en menn í New York eru hinsvegar allt annað en sáttir með að stjörnuleikmaður liðsins láti ekki sjá sig fyrr en í sumar.

Lampard kom til Manchester City á sex mánaða láni frá MLS-liðinu New York City FC en hann samdi við bandaríska félagið í fyrra. Það verður frekari bið eftir því að hann spili sinn fyrsta leik í bandarísku deildinni.

Manchester City hefur nú framlengt lánsamninginn til maí eða júní sem þýðir að þessi 36 ára gamli miðjumaður missir af þremur fyrstu mánuðunum á sínu fyrsta tímabili með New York City FC.

Stuðningsmannaklúbbur New York City FC, "the Third Rail", gekk svo langt að senda frá sér fréttatilkynningu þar sem klúbburinn fordæmir opinberlega þessa ákvörðun Frank Lampard.

New York City FC auglýsti mikið komu Frank Lampard á sínum tíma og seldi með því marga ársmiða og varning tengdum enska leikmanninum. Meðlimir Third Rail líta á að þeir hafi verið sviknir auk þess að vera ósáttir við að New York City FC sé með þessu látið líta sem annars flokks félag í samanburði við Manchester City.

Frank Lampard hefur skorað sex mörk fyrir Manchester City á tímabilinu en liðið er í öðru sæti ensku úrvalsdeildarinnar.

Eigendur Manchester City eiga einnig New York City FC og hafnarboltaliðið New York Yankees og leikir fótboltaliðsins í New York munu fara fram á sjálfum Yankee Stadium þegar bandaríska MLS-deildin fer af stað í mars.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×