Enski boltinn

Pellegrini: Lampard er mikilvægur fyrir okkur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Frank Lampard og James Milner.
Frank Lampard og James Milner. Vísir/Getty
Manuel Pellegrini, knattspyrnustjóri Manchester City, gat þakkað lánsmanninum Frank Lampard að City-liðið fékk öll stigin á móti Sunderland í ensku úrvalsdeildinni í dag en Lampard skoraði sigurmarkið aðeins tveimur mínútum eftir að hann kom inná sem varamaður.

„Frank Lampard er mjög mikilvægur leikmaður fyrir okkur ekki síst þegar liðið vantar mark. Við spiluðum samt 90 góðar mínútur, hreyfðum boltann vel og einu mistökin voru að gefa þeim þessa vítaspyrnu," sagði Manuel Pellegrini.

„Það var alltof auðvelt hjá þeim að ná í þessa vítaspyrnu. Það voru okkar mistök. Við höfum Frank sem skorar mörk en við fengum líka fjögur eða fimm dauðafæri til að bæta við mörkum. Costel Pantilimon var þeirra besti leikmaður," sagði Pellegrini.

„Við vorum að spila á móti tíu varnarmönnum allan leikinn. Auðvitað hef ég áhyggjur af því að við misstum aftur niður tveggja marka forystu en þetta var allt annað dæmi en á móti Burnley," sagði Pellegrini.

Manuel Pellegrini talaði einnig um að Manchester City verði rólegt á félagsskiptamarkaðnum sem opnar á ný í janúarmánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×