Enski boltinn

Young frá í fjórar vikur

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Getty
Manchester United verður án Ashley Young næstu fjórar vikurnar en Louis van Gaal, knattspyrnustjóri liðsins, staðfesti það eftir 1-1 jafntefli liðsins gegn Stoke í dag.

Þetta var þriðja jafntefli United í röð á útivelli en Young haltraði af velli í síðari hálfleik. Ryan Shawcross kom Stoke yfir snemma leiks en Falcao jafnaði fyrir gestina.

United hefur ekki tapað í tíu leikjum í röð en Van Gaal segist óánægður með að liðið hafi ekki unnið í dag. „Ég hef ekki áhuga á því hversu langt er síðan við töpuðum síðast. Við verðum að vinna útileiki líka og við gerðum það ekki í dag,“ sagði van Gaal.

„Stoke átti líklega frekar skilið að vinna í dag og því tel ég að jafntefli séu góð úrslit fyrir okkur. Ég hef margoft sagt eftir leiki að við vorum betra liðið en það var ekki tilfellið í dag. Við verðum að spila mun betur í útileikjum en við gerðum í dag.“

„Young meiddist aftan í læri og verður frá í fjórar vikur held ég. Við verðum að bíða og sjá til því ég er ekki læknir. En ég ímynda mér að það sé tilfellið.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×