Fótbolti

Argentínumaður tekur við starfi Slátrarans frá Bilbao

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Andoni Goikoetxea.
Andoni Goikoetxea. Vísir/Getty
Gestgjafar Miðbaugs-Gíneu hafa fundið sér nýjan landliðsþjálfara aðeins tveimur vikum fyrir að Afríkukeppnin fer fram í landinu.

Andoni Goikoetxea, þekktur undir nafninu Slátrarinn frá Bilbao, var með samning til 31. desember en knattspyrnusamband Miðbaugs-Gíneu ákvað að framlengja ekki samninginn.

Goikoetxea, sem er 58 ára Spánverji, var búinn að þjálfa landslið Miðbaugs-Gíneu frá því í febrúar 2013 en hann var "rekinn" fyrir að neita að fara með liðinu til Portúgal um miðjan desember.

Andoni Goikoetxea er kannski þekktastur fyrir afar ljótt brot sitt á Diego Maradona í september 1983 en Maradona var frá í langan tíma á eftir enda ökklabrotnaði hann í tæklingu Slátrarans. Það myndband má sjá hér að neðan.

Esteban Becker er fimmtugur Argentínumaður sem gerði kvennalið Miðbaugs-Gíneu að Afríkumeisturum árið 2012.

Fyrsti leikur Miðbaugs-Gíneu í Afríkukeppninni er á móti Kóngó 17. janúar næstkomandi en liðið er einnig í riðli með Gabon og Búrkínu Fasó.

Miðbaugs-Gíneu átti ekki að halda Afríkukeppnina en tók við gestgjafahlutverkinu á síðustu stundu af Marokkó. Miðbaugs-Gíneu fékk líka sæti Marokkó í keppninni en liðið hafði áður setið eftir í undankeppninni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×