Enski boltinn

Lukaku tryggði Everton annan leik á síðustu stundu

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Romelu Lukaku var hetja Everton í kvöld.
Romelu Lukaku var hetja Everton í kvöld. vísir/getty
Everton og West Ham skildu jöfn, 1-1, í 3. umferð ensku bikarkeppninnar í fótbolta í kvöld og þurfa því að mætast aftur á Upton Park til að skera úr um hvor fer í fjórðu umferðina og mætir þar Doncaster eða Bristol City.

West Ham var betri aðilinn framan af og komst yfir með marki James Collins eftir hornspyrnu á 54. mínútu, en hornspyrnur West Ham-manna voru hættulegar eins og svo oft áður.

Heimamenn í Everton lögðu allt í sölurnar undir lokin og pressuðu stíft á West Ham. Þeir uppskáru mark á 90. mínútu þegar Romelu Lukaku hamraði boltann í netið af stuttu færi eftir fyrirgjöf Bryans Oviedo.

C-deildarliðin Scunthorpe og Chesterfield áttust einnig við í kvöld og gerðu 2-2 jafntefli. Gestirnir úr Chesterfield voru 2-0 undir í hálfleik en svöruðu með tveimur mörkum í síðari hálfleik og fá annan leik á sínum heimavelli.

Sigurvegarinn úr þeirri rimmu mætir Derby í fjórðu umferð bikarsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×