Fótbolti

Svaf ekki í þrjá daga eftir árásirnar í París

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Kompany er einnig fyrirliði belgíska landsliðsins.
Kompany er einnig fyrirliði belgíska landsliðsins. Vísir/Getty

Vincent Kompany, fyrirliði Manchester City, hefur greint frá því að hann var í miklu uppnámi eftir hryðjuverkaárásirnar í París.

Árásarmennirnir eru sagðir hafa haldið til í Belgíu, heimalandi Kompany, og hefur verið hæsta viðbúnaðarstig í landinu eftir árásirnar.

„Þetta hefur verið mjög erfitt. Ég svaf ekki í þrjá daga, líklega vegna árásanna, en einnig eftir að fréttir bárust af því að þær tengdust borginni minni [Brussel],“ sagði Kompany í viðtali við CNN.

„Þetta var sárt. Ég elska borgina mína og fólkið. Ég var eins og flestir aðrir í miklu uppnámi.“

Kompany segir að borgin hafa ávallt verið suðupottur mismunandi menningarheima og hann hvetur aðra til að tala fallega um hana. „Við þurfum að tala um hana á jákvæðum nótum,“ sagði hann.

Belginn hefur verið frá vegna meiðsla og missti af leikjum City gegn Liverpool og Juventus síðustu daga. City tapaði báðum leikjum en Manuel Pellegrini, stjóri liðsins, reiknar ekki með því að endurheimta Kompany fyrr en eftir tvær vikur í fyrsta lagi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×