Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir að ríkisstjórnin hafi ekki rætt um að setja lög á verkfall BHM. Ríkisstjórn fundaði í morgun, en hlé var gert á fundi til að ráðherrar gætu tekið þátt í atkvæðagreiðslu á Alþingi. Fundinum heldur áfram á eftir, en Bjarni segir að lög á verkfall séu ekki á dagskrá þess fundar.
„Ég er ekki með slíkt mál fyrir mitt leyti, en mér finnst eðlilegt að að minnsta kosti undir liðnum önnur mál verði staðan í kjaradeilum rædd. Mér finnst það nú ekki nema eðlilegt, við höfum að jafnaði tekið stöðuna á ríkisstjórnarfundum í kjaradeilum og hún er alvarleg. Hún er að bitna á mörgum sem síst skyldi og verkföllin hafa staðið gríðarlega lengi og það er mikið áhyggjuefni fyrir okkur öll.“
Áhyggjufullur yfir stöðu mála
Bjarni segir að að á meðan líf sé í viðræðum verði ekki boðuð lög á verkfallið. Hann hafi þó áhyggjur af því hve væntingar séu um miklar breytingar í einu skrefi og ekki sé hægt að verða við því að leiðrétta misgengi sem orðið hefur á allt að tíu árum.
„Við erum ekki, á meðan það er líf í viðræðum, að boða lög á verkfallið. Ég verð samt að segja það að ég hef áhyggjur af því að ekki skuli hafa verið boðað til fundar og það skuli ekki hafa náðst betur saman á síðasta fundi með BHM.“
Félagar í BHM stóðu fyrir fjölmennum mótmælum fyrir utan stjórnarráðshúsið á meðan á ríkisstjórnarfundi stóð.
Lög á verkföll ekki enn rædd
Kolbeinn Óttarsson Proppé skrifar

Mest lesið



Maðurinn kominn í leitirnar
Innlent


Bensínbrúsar inni í íbúðinni
Innlent



Mjög alvarlegt tilfelli
Innlent

