Runólfur Oddsson, ræðismaður Slóvakíu á Íslandi sem hélt utan um framkvæmd prófsins í dag, segir í samtali við Vísi að nemendur ytra láti mjög vel af náminu. Nemendur klára námið á sex árum og klíníkin sé svo mikil að ekki þurfi að taka kandídatsár að námi loknu. Allt nám fer fram á ensku en nemendur læra jafnframt slóvakísku.

„Það stefnir í að helmingurinn af íslenskum læknum verði menntaður þarna og helmingurinn hérna heima,“ segir Runólfur. Um 1850 nema læknisfræði við skólann en helmingurinn er útlendingar. Um 550 Norðmenn eru við skólann, 120 Svíar og svo 80 Íslendingar.
Próftökugjaldið er ekkert en skólagjöldin eru 9500 evrur á ári sem svarar til tæplega 1,4 milljóna króna. Sé allt tekið með í reikninginn þegar borið er saman læknanám hér í höfuðborginni og ytra, þ.e. húsaleiga og uppihald, telur Runólfur síst dýrara að nema í Slóvakíu.
Íslendingar hafa fleira til Slóvakíu að sækja að sögn Runólfs. Þann 21. maí verður inntökupróf í læknisfræði og tannlækningar við Palacky háskólann í Olomouc í Tékklandi. Svo um miðjan júní verður inntökupróf í dýralækningar og lyfjafræði við háskóla í Kosice í Króatíu. Þá verður einnig í boði að þreyta inntökupróf við kvikmyndaháskólann í Bratislava.