Forráðamenn Viking í Noregi hafa staðfest að félagið hafi hafnað tilboði frá þýska B-deildarliðinu Kaiserslautern í landsliðsmanninn Jón Daða Böðvarsson.
„Við megum ekki missa Jón Daða um leið og Veton Berisha er að fara frá félaginu,“ sagði Henning Johannessen, einn forráðamanna Viking, samtali við Aftenbladet í Noregi.
Hann vildi ekki gefa upp hvaða félag um ræddi en samkvæmt heimildum blaðsins er það Kaiserslautern sem hafnaði í fjórða sæti þýsku B-deildarinnar á síðustu leiktíð.
Jón Daði nýtti tækifæri sitt í byrjunarliði Viking á dögunum vel og skoraði í 3-1 sigri á Sarpsborg um helgina. Það var hans 100. leikur með félaginu.
Samningur hans við félagið rennur út í lok tímabilsins og liggur ljóst fyrir að Jón Daði muni fara frá félaginu ekki síðar en þá. Samningur Berisha rennur út um mánaðamótin og er talið víst að hann semji þá við þýskt félag.
