Fótbolti

Ronaldo: Ég fæ mína blaðsíðu í bókinni um þá allra bestu

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Cristiano Ronaldo með Gullboltann.
Cristiano Ronaldo með Gullboltann. vísir/getty
Cristiano Ronaldo, leikmaður Real Madrid, var kjörinn besti knattspyrnumaður heims á mánudagskvöldið annað árið í röð og í þriðja sinn á hans ferli.

Ronaldo er nú einum Gullbolta á eftir Argentínumanninum Lionel Messi sem var kjörinn sá besti í heimi fjórum sinnum í röð frá 2009-2012.

Sjá einnig:Cristiano Ronaldo valinn bestur í heimi annað árið í röð

„Til að vera heiðarlegur hélt ég ekki að ég yrði á toppnum fótboltanum í svona mörg ár. Þetta hefur allt gerst svo hratt. Að mínu mati er það erfiðasta að halda þessum gæðum,“ segir Portúgalinn í viðtali á heimasíðu FIFA.

„Ég er stoltur af því að hafa verið í liði ársins átta ár í röð og oft verið á meðal þriggja bestu knattspyrnumanna heims. Það er eitthvað sem fáir hafa afrekað. Ég held að bara ég og Messi hafi afrekað þetta, ekki margir allavega til viðbótar.“

„Ég er efins um að nokkur maður hafi verið í liði ársins átta ár í röð sem er gaman fyrir mig að vita. Þessi verðlaun eru til marks um að hlutirnir eru að ganga vel hjá mér og ég nýt þess að eiga stórkostlegan feril.“

Ronaldo veit vel að hann verður talinn goðsögn um leið og hann leggur skóna á hilluna, en hann er ekki viss um hvort hann eigi áratug eftir í boltanum.

Sjá einnig:Cristiano Ronaldo bræddi mörg hjörtu á sviðinu - myndir

„Í sannleika sagt hugsa ég ekkert um arfleið mína. Ég veit að ég mun eiga stað í sögu leiksins vegna alls þess sem ég geri og alls þess sem ég hef unnið,“ segir Ronaldo.

„Ég veit að það verður blaðsíða tileinkuð mér einhverstaðar á milli þeirra allra bestu í sögunni og það gleður mig.“

„Ég er 29 ára núna en líður eins og ég sé 25 ára. Ég get haldið sömu gæðum í fimm, sex og kannski sjö ár til viðbótar en hvað gerist eftir það verður að koma í ljós,“ segir Cristiano Ronaldo.


Tengdar fréttir

Messi og Cristiano hafa aldrei kosið hvorn annan

Cristiano Ronaldo og Lionel Messi urðu enn á ný í tveimur efstu sætunum í kvöld þegar FIFA verðlaunaði besta knattspyrnumann heims með Gullboltanum. Cristiano Ronaldo vann annað árið í röð og Messi varð aftur að sætta sig við annað sætið.

Heimir valdi Manuel Neuer bestan í heimi

Heimir Hallgrímsson, þjálfari íslenska fótboltalandsliðsins, fékk atkvæðisrétt í kosningunni á besta knattspyrnumanni heims en Heimir var ekki sammála meirihlutanum sem valdi Cristiano Ronaldo besta fótboltamann heims annað árið í röð.

Cristiano Ronaldo bræddi mörg hjörtu á sviðinu - myndir

Cristiano Ronaldo fékk í kvöld Gullbolta FIFA annað árið í röð þegar hann var kosinn besti knattspyrnumaður heims af landsliðsþjálfurum, landsliðsfyrirliðum og útvöldum blaðamönnum úr aðildarþjóðum Alþjóðaknattspyrnusambandsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×