Erlent

Coulson hlaut átján mánaða dóm

Atli Ísleifsson skrifar
Andy Coulson var dæmdur fyrir stórfelldar símhleranir breska blaðsins News of the World.
Andy Coulson var dæmdur fyrir stórfelldar símhleranir breska blaðsins News of the World. Vísir/AFP
Andy Coulson, fyrrum ritstjóri News of the World sem síðar starfaði sem fjölmiðlaráðgjafi David Cameron forsætisráðherra, var í morgun dæmdur í átján mánaða fangelsi fyrir stórfelldar símhleranir blaðsins. Breskur dómstóll kvað upp úrskurð sinn í síðustu viku en tilkynnti um refsingu Coulson í morgun.



Coulson er einn fimm starfsmanna blaðsins sem voru dæmdir. Blaðamaðurinn Neville Thurlbeck og fréttastjórinn Greg Miskiw hlutu báðir sex mánaða dóm. Glenn Mulcaire sem hélt utan um hleranirnar og blaðamaðurinn James Weatherup fengu báðir skilorðsbundna dóma. Símhleranirnar stóðu yfir á árunum 2000 til 2006.

Fimm starfsmenn blaðsins, þar með talið fyrrum framkvæmdastjóri blaðsins, Rebekah Brooks, voru hins vegar sýknuð af ákærum um símahleranir, mútur og að hindra framgöngu réttlætis í lok síðasta mánaðar.

Réttarhöld vegna málsins hafa staðið yfir síðustu átta mánuði. Dagblaðinu News of the World, sem var í eigu auðkýfingsins Rupert Murdoch, var lokað árið 2011 eftir að upp komst að starfsmenn þess höfðu hlerað síma myrtu skólastúlkunnar Milly Dowler.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×