Innlent

Nemar á Norðurlöndum ekki á kjörskrá: "Þurfa að skoða rétt sinn“

Sveinn Arnarsson skrifar
Einhverjir námsmenn á Norðurlöndunum eru dottnir af kjörskrá í sveitarstjórnarkosningunum.
Einhverjir námsmenn á Norðurlöndunum eru dottnir af kjörskrá í sveitarstjórnarkosningunum.
Upp hafa komið tilvik þar sem námsmenn búsettir á Norðurlöndum og með lögheimili þar séu ekki á kjörskrá sinna sveitarfélaga til sveitarstjórnarkosninga.

Grétar Ævarsson, nemi í Noregi, hafði samband við Visi vegna þessa. Hann færði lögheimili sitt til Noregs á grundvelli samninga Norðurlandanna um almannaskráningu. Með réttu ætti hann að vera á kjörskrá í Reykjavík en gat ekki fundið sig þar þegar hann leitaði eftir kennitölu sinni á kosningavef Innanríkisráðuneytisins.

„Ég vil að allir nýti kosningarétt sinn og ég vona að allir námsmenn á Norðurlöndunum kynni sér það hvort þeir eru á kjörskrá," segir Grétar. „Það er bagalegt ef fjöldi nema á Norðurlöndunum er ekki á kjörskrá vegna þessa."

Á vef Innanríkisráðuneytisins er skýrt kveðið á um hverjir geti kosið í sveitarstjórnarkosningum. Þar kemur fram að allir þeir nemar á Norðurlöndunum sem skráð hafa lögheimili sitt þar vegna samnings Norðurlandanan um almannaskráningu eigi rétt á að kjósa. þar segir:

Kosningarétt við sveitarstjórnarkosningarnar 31. maí 2014 eiga allir íslenskir ríkisborgarar sem náð hafa 18 ára aldri á kjördag og sem skráðir eru með lögheimili í viðkomandi sveitarfélagi þremur vikum fyrir kjördag, 10. maí 2014. Eina undantekningin frá þessu eru íslenskir námsmenn á hinum Norðurlöndunum sem þurft hafa að skrá lögheimili sitt þar samkvæmt ákvæðum samnings Norðurlandanna um almannaskráningu. Þeir glata ekki kosningarétti sínum í sveitarstjórnarkosningum vegna þess.

Ástríður Jóhannesdóttir
, deildarstjóri lögfræðideildar Þjóðskrársviðs segir að það geta komið upp tilvik sem þessi. 

„Það eru dæmi um það að einstaklingar í námi erlendis og uppfylla skilyrði um að geta kosið séu ekki í kjörskrárstofni. Við höfum ekki tölur um hversu margir geta verið í þessum sporum. Þeirra er þá að koma viðeigandi gögnum til sinna sveitarfélaga þess efnis að þeir séu í námi og eigi þar að leiðandi rétt á að vera á kjörskrá til sveitarstjórnarkosninga.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×