Erlent

Hollande og Trierweiler slíta sambandinu

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Hollande tilkynnti í gær að hann og Trierweiler hefðu slitið sambandi sínu.
Hollande tilkynnti í gær að hann og Trierweiler hefðu slitið sambandi sínu. mynd/afp
Francois Hollande, Frakklandsforseti, tilkynnti í gær að hann og sambýliskona hans til sjö ára, Valerie Trierweiler, hefðu slitið sambandi sínu.

Fyrir tveimur vikum greindi franska tímaritið Closer frá því að forsetinn hefði haldið framhjá sambýliskonu sinni með leikkonunni Julie Gayet, en hún er tuttugu árum yngri en hann. Hvorugt þeirra neitaði fyrir sambandið og hafði Hollande viðurkennt að brestir væru í sambandi hans og Trierweiler.

Forsetinn hótaði að fara í mál við Closer fyrir að brjóta á friðhelgi einkalífsins en leikkonan hefur nú þegar hafið málaferli við tímaritið og fer fram á háar skaðabætur.

Valerie Trierweiler var lögð inn á sjúkrahús vegna ofþreytu eftir að frásögnin um framhjáhaldið var birt í tímaritinu og dvaldi þar í eina viku. Frá því hún var útskrifuð af sjúkrahúsinu hefur hún dvalið í forsetabústað skammt frá Versölum.

Trierweiler og Hollande hófu samband sitt árið 2007, en þá var hann kvæntur Segolene Royal sem hann á með fjögur börn. Hollande skildi og lét eftir sér í viðtali árið 2010 að Valerie væri stóra ástin í lífi hans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×