Enski boltinn

Sturridge hetja Liverpool

Sterling fagnar marki sínu.
Sterling fagnar marki sínu. Vísir/Getty
Daniel Sturridge var hetja Liverpool þegar liðið lagði baráttuglatt lið Southampton af velli í fyrstu umferð ensku úrvalsdeildarinnar. Sigurmarkið kom tíu mínútum fyrir leikslok.

Liverpool komst yfir eftir 23. mínútna leik. Jordan Henderson sendi þá magnaða sendingu inn fyrir á Raheem Sterling sem kláraði færið vel og þeir rauðklæddu komnir yfir.

Staðan var 1-0 í hálfleik, en síðari hálfleikur var ellefu mínútna gamall þegar gestirnir jöfnuðu. Dusan Tadic átti frábæra sendingu á Nathaniel Clyne sem þrumaði boltanum upp í nær hornið. Staðan orðin jöfn.

Gestirnir lokuðu vel á Liverpool eftir markið og voru stuðningsmenn heimamanna orðnir óþreyjufullir, en Liverpool á mann að nafni Daniel Sturridge. Hann skoraði sigurmarkið tíu mínútum fyrir leikslok þegar hann potaði boltanum inn eftir að Raheem Sterling hafi skallað boltann að marki Southampton.

Gestirnir gerðu allt hvað þeir gátu til að jafna og átti meðal annars Morgan Schneiderlin skot í slá og Shane Long skallaði boltann framhjá úr dauðafæri. Allt kom fyrir ekki og lokatölur urðu 2-1 sigur Liverpool.

Afar dýrmætur sigur Liverpool sem mætir Manchester City á útivelli í næsta leik á meðan Southampton spilar við WBA.

Hér fyrir neðan birtust sjálfkrafa allar helstu upplýsingar um framvindu leiksins sem og leikmannahópa liðanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×