Erlent

Vandinn aldrei verið meiri

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Flóttamannabúðir í Tyrklandi Kúrdar frá Sýrlandi í flóttamannabúðum í bænum Suruc, rétt norðan landamæra Sýrlands.
Flóttamannabúðir í Tyrklandi Kúrdar frá Sýrlandi í flóttamannabúðum í bænum Suruc, rétt norðan landamæra Sýrlands. Vísir/AFP
Hátt í tíu milljónir Sýrlendinga hafa flúið heimili sín frá því átökin þar hófust snemma árs 2011. Þetta eru meira en 40 prósent allra íbúa landsins. Um þrjár milljónir eru farnar til nágrannalandanna en hinir eru á vergangi innanlands.

Á leið til Úrúgvaí Fjölskylda frá Sýrlandi komin til borgarinnar Trípolí í Líbanon. Þau hafa fengið hæli í Úrúgvaí ásamt rúmlega 100 öðrum sýrlenskum flóttamönnum.Vísir/AP
Sameinuðu þjóðirnar segja að aldrei fyrr hafi jafn margir jarðarbúar þurft á neyðaraðstoð að halda. Mest munar þar um ástandið í Sýrlandi, Suður-Súdan, Írak og Mið-Afríkulýðveldinu.

Mikið vantar upp á að hjálparstofnanir á vegum Sameinuðu þjóðanna og annarra fái nægilega fjármuni til að standa straum af aðstoð við allt þetta fólk.

„Alls er talið að um 78 milljónir manna þurfi á aðstoð að halda og við stefnum að því að bregðast við þörfum 57 milljóna þeirra,“ sagði Valerie Amos, framkvæmdastjóri mannúðar- og neyðarstarfs Sameinuðu þjóðanna. Til þess telja Sameinuðu þjóðirnar sig þurfa 16,4 milljarða dala, eða meira en 2.000 milljarða króna.

Bjargað á flótta Nærri 350 flóttamönnum var í september bjargað af skipi út af ströndum Kýpur. Þessi hópur kom að mestu frá Sýrlandi.Vísir/AFP
„Ef við lítum á þetta ár, þá höfum við til þessa fengið 9,4 milljarða dala. Með því fé komum við í veg fyrir hungursneyð í Suður-Súdan, við komum mataraðstoð til milljóna Sýrlendinga í hverjum mánuði, við útveguðum milljónum Íraka lyf og við útveguðum matvæli handa 930 þúsund manns í Mið-Afríkulýðveldinu,“ sagði hún á blaðamannafundi í vikunni.

Hún sagði þjóðir heims standa frammi fyrir stærri vanda en nokkru sinni og á sama blaðamannafundi sagði Antonio Guterres, flóttamannafulltrúi Sameinuðu þjóðanna, að hin gríðarlega aukning vandans sýndi hve flókinn hann sé orðinn og erfiður viðureignar.

Nú hafa 28 lönd samþykkt að taka við hundrað þúsund flóttamönnum frá Sýrlandi, til viðbótar þeim hundrað þúsund flóttamönnum þaðan sem áður hafa fengið inni í öðrum löndum. Þetta er í raun lítill hluti vandans.

„Heimurinn á nágrannalöndunum mikla skuld þakklætis að gjalda, sem við munum líklega aldrei ná að endurgjalda,“ sagði Guterres í vikunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×