Innlent

Keppast um að móta framtíð Keflavíkurflugvallar

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Nítján fulltrúar frá fyrirtækjunum sex sem valin voru til hönnunarsamkeppni um uppbyggingar- og þróunaráætlun Keflavíkurflugvallar kynntu sér flugvöllinn og starfsemi hans í síðustu viku.
Nítján fulltrúar frá fyrirtækjunum sex sem valin voru til hönnunarsamkeppni um uppbyggingar- og þróunaráætlun Keflavíkurflugvallar kynntu sér flugvöllinn og starfsemi hans í síðustu viku.
Sex alþjóðleg fyrirtæki hafa verið valin til samkeppni um mótun uppbyggingar- og þróunaráætlunar (Masterplan) fyrir Keflavíkurflugvöll til næstu 25 ára. Forval var auglýst á Evrópska efnahagssvæðinu í október.

Fyrirtækin hafa öll unnið sambærilegar áætlanir í löndum Evrópska efnahagssvæðisins og/eða í Norður-Ameríku. Í tilkynningu frá Isavia segir að þau hafi á að skipa sérfræðingum með mikla reynslu í skipulagsmálum flugvalla.

Uppbyggingar- og þróunaráætlun Keflavíkurflugvallar verður framtíðarsýn á landnýtingu, uppbyggingu flugvallarmannavirkja og umhverfisáætlun.

Ferðamannastraumur um Keflavíkurflugvöll hefur aukist mikið undanfarin ár og er gert ráð fyrir að sú þróun haldi áfram.

Þátttakendur í samkeppninni munu skila inn tillögum sínum 12. janúar næstkomandi og verða eitt eða fleiri fyrirtækjanna valin til þess að vinna fullmótaða áætlun sem liggja skal fyrir í júní á næsta ári.

„Áhuginn sem verkefninu hefur verið sýndur er mjög ánægjulegur. Fyrirtækin búa yfir yfirgripsmikilli þekkingu og reynslu og ég er fullviss um að niðurstaðan verður glæsileg fyrir þróun flugvallarins,“ segir Björn Óli Hauksson, forstjóri Isavia, í tilkynningu. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×