Innlent

Leiðréttingin kynnt eftir viku

Viktoría Hermannsdóttir skrifar
Ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar ætlar að kynna leiðréttinguna í næstu viku.
Ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar ætlar að kynna leiðréttinguna í næstu viku.
Skuldaleiðrétting ríkisstjórnarinnar verður kunngjörð á mánudaginn í næstu viku. Umsækjendur um skuldaleiðréttinguna geta kynnt séð niðurstöður hennar daginn eftir.

„Vinna við leiðréttinguna er á lokastigi og gengur vel. Það er verið að hnýta síðustu lausu endana. Gert er ráð fyrir að leiðréttingin verði kynnt opinberlega mánudaginn 10. nóvember og síðan birtist hún umsækjendum daginn eftir, þriðjudaginn 11. nóvember. Fólk á þá að geta séð allar upplýsingar um það hver niðurstaðan er við þeirra umsókn,“ segir Sigurður Már Jónsson, upplýsingafulltrúi ríkistjórnarinnar. Frestur til þess að sækja um skuldaniðurfellingu rann út 1. september síðastliðinn. Alls bárust 69 þúsund umsóknir um skuldaniðurfellingu og að baki þeim eru um 105 þúsund manns. Gert er ráð fyrir að leiðréttingin muni kosta 80 milljarða sem dreifist á fjögurra ára tímabil. Upphaflega var gert ráð fyrir að niðurstöður skuldaleiðréttingarinnar lægju fyrir um miðjan október en það frestaðist.

Með skuldaleiðréttingunni verða verðtryggð húsnæðislán færð niður um fjárhæð sem samsvarar verðbótum umfram 4,8% sem féllu til á tímabilinu desember 2007 til ágúst 2010. Þetta samsvarar um 13% leiðréttingu á vísitölu neysluverðs til verðtryggingar. Hámarksfjárhæð niðurfærslu á heimili verður 4 milljónir króna, segir á heimasíðu forsætisráðuneytisins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×