Innlent

Kaupþing fékk 85 milljarða án þess að ganga frá veðinu

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings, fullyrðir að engin lánaskjöl hafi verið undirrituð og Seðlabankinn ekki gengið frá veðsetningu FIH bankans til sín, þegar samið var um 500 milljóna evra lán frá Seðlabanka Íslands til Kaupþings í október 2008. Andvirði lánsfjárhæðarinnar var 85 milljarðar króna.

Í aðsendri grein sem birtist í Fréttablaðinu í dag segir Hreiðar Már að Seðlabanki Íslands hafi einfaldlega millifært 500 milljónir evra til Kaupþings mánudaginn 6. október eftir samtal um lánveitinguna milli hans og Davíðs Oddssonar, formanns bankastjórnar Seðlabankans.

„Það var svo ekki fyrr en á næstu dögum á eftir að Seðlabankinn fór fram á það við okkur að við gengjum frá lánaskjölum og veðsetningu FIH bankans vegna lánveitingarinnar. Það gerðum við stjórnendur Kaupþings að sjálfsögðu eins og um hafði verið rætt en þá var búið að millifæra lánsfjárhæðina í heild sinni,“ segir Hreiðar í greininni.

Hreiðar sendir greinina í framhaldi af ummælum Geirs Haarde í Eyjunni á Stöð 2 á dögunum. Í viðtalinu sagði Geir að menn hefðu haldið í vonina mánudaginn 6. október um að Kaupþing myndi lifa af. Ákvörðun um lánveitinguna hefði verið tekin á grundvelli þess. Geir sagði að peningarnir hefðu átt að fara í að bjarga stöðu Kaupþings gagnvart breska fjármálaeftirlitinu. „En síðan kemur á daginn að peningarnir höfðu farið allt annað,“ sagði Geir.

Greint hefur verið frá því að Embætti sérstaks saksóknara hefur ákært nokkra af fyrrverandi stjórnendum Kaupþings, þar á meðal Hreiðar Má, vegna meðferðar á peningum sem fengust með láninu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×