Innlent

Vel gekk að ferja hundrað þúsund á Menningarnótt

ingvar haraldsson skrifar
Greiðlega gekk að koma ríflega hundrað þúsund manns sem sóttu Menningarnótt í miðbæinn aftur heim.
Greiðlega gekk að koma ríflega hundrað þúsund manns sem sóttu Menningarnótt í miðbæinn aftur heim. vísir/andri marínó
Yfir hundrað þúsund manns sóttu Menningarnótt á laugardaginn. Þegar flugeldasýningunni lauk klukkan ríflega ellefu þurfti að ferja mannfjöldann úr miðbænum. Sextíu vagnar frá Strætó voru notaðir til að koma fólki heim auk þess sem lögreglan var með mikinn viðbúnað.

„Það tók um klukkutíma að koma mesta fjöldanum úr bænum. Þetta var komið í eðlilegt helgarástand um klukkan eitt,“ segir Árni Friðleifsson, varðstjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.

Aldrei hafa fleiri nýtt sér þjónustu Strætós á einum degi. „Við hefðum þurft að hafa fleiri vagna. Það er búið að ákveða að fjölga í áttatíu vagna eftir flugeldasýninguna á næsta ári,“ segir Reynir Jónsson, framkvæmdastjóri Strætós.

„Við Njarðargötu og Íslenska erfðagreiningu tók þetta lengri tíma en annars staðar. Það lögðu fleiri í vesturhlutanum en austan megin. Borgartúnið hefði getað borið mun meiri umferð,“ segir Árni sem bætir við að heilt yfir hafi dagurinn tekist vel.

Þó eru alltaf einhverjir sem ekki vilja hlýða fyrirmælum lögreglu. „Það er alltaf einn og einn sem telur sig yfir lokanir hafinn og ætlar að komast nær. Það eru margir sem hreinlega nenna ekki að ganga.“

Árni Friðriksson, varðstjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu segir að vel hafi gengið að koma fólki úr miðbænum miðað við þann fjölda sem þar var.
Rúmlega þúsund fengu sekt

Ríflega eitt þúsund ökumenn voru sektaðir fyrir að leggja ólöglega. „Við komumst bara yfir hluta þeirra sem lögðu ólöglega. Það er bara þannig að umferðarlögin gilda hvort sem það er Menningarnótt eða ekki,“ segir Árni.

Þingholtunum var í ár bætt við það svæði sem lokað var fyrir bílaumferð. „Það má segja að öllum miðbænum vestan Snorrabrautar hafi verið lokað,“ segir Árni en að hans sögn var um öryggisráðstöfun að ræða. „Neyðaraðstoð þarf að komast í gegnum Þingholtin ef eitthvað gerist. Sjúkrabílar og slökkviliðsbílar hafa ekki getað það undanfarin ár.“ 

Einar Bárðarson, einn af skipuleggjendum Menningarnætur, telur það hafa heppnast vel að loka Þingholtunum fyrir bílaumferð. „Fjöldinn dreifðist allt öðruvísi. Með því að stækka lokunarsvæðið dreifðust þyngdarpunktarnir meira. Stemming var afslappaðri og þægilegra að komast á milli staða,“ segir Einar.

Strætó bauð í fyrsta sinn á Menningarnótt upp á strætóferðir frá Kirkjusandi og Borgartúni og upp á Skólavörðuholt. Reynir segir mikinn fjölda hafa nýtt sér þá þjónustu. „Við hefðum þurft að bæta við vögnum og byrja að ferja fólk fyrr,“ segir Reynir. Strætó hefur þegar ákveðið að tvöfalda fjölda þeirra vagna sem keyra þessa leið næstu Menningarnótt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×