Innlent

88 langreyðar veiddar í sumar

Freyr Bjarnason skrifar
Leyfi er fyrir veiðum á 154 langreyðum á þessu ári.
Leyfi er fyrir veiðum á 154 langreyðum á þessu ári. Fréttablaðið/Vilhelm
Síðan hvalveiðitímabilið hófst 15. júní síðastliðinn höfðu 88 langreyðar verið dregnar að landi í Hvalstöðinni í Hvalfirði í fyrradag. Leyfi er fyrir veiðum á 154 langreyðum á þriggja mánaða tímabili og enn er því töluverður tími til að fylla kvótann.

„Þetta hefur gengið þokkalega vel. Þetta eru aðeins færri dýr en á sama tíma í fyrra. Það er búið að vera erfitt tíðarfar en þetta kemur allt,“ segir Gunnlaugur Fjólar Gunnlaugsson, stöðvarstjóri Hvals í Hvalstöðinni, aðspurður.

Veiðarnar hafa farið fram fyrir austan Surtsey en þar hefur ekki verið veitt undanfarin ár. „Hún er eitthvað á eftir æti þarna,“ segir Gunnlaugur Fjólar. Um 150 manns sinna störfum sem tengjast veiðunum. Níutíu eru í vinnslunni í Hvalfirði, auk hvalveiðimanna og þeirra sem starfa á Akranesi og í Hafnarfirði. Hvalkjötið sem veiðist fer allt á Japansmarkað og segir Gunnlaugur ekkert mál að selja það þangað.


Fleiri fréttir

Sjá meira


×