Innlent

Færri fæðast heyrnarlausir og fleiri fá kuðungsígræðslu

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Árið 2011 voru lög samþykkt þar sem táknmál var viðurkennt sem fyrsta tungumál heyrnarlausra og fögnuðu margir á þingpöllunum. Með fleiri kuðungsígræðslum er hvatt til þess að heyrnarlausir séu tvítyngdir og geti bæði tjáð sig á íslensku og táknmáli.
Árið 2011 voru lög samþykkt þar sem táknmál var viðurkennt sem fyrsta tungumál heyrnarlausra og fögnuðu margir á þingpöllunum. Með fleiri kuðungsígræðslum er hvatt til þess að heyrnarlausir séu tvítyngdir og geti bæði tjáð sig á íslensku og táknmáli. Vísir/HAG
Samfélag heyrnarlausra hefur ekki minnkað en meðalaldurinn fer hækkandi. Ástæðan er sú að tíðni hefur staðið í stað. Á fimmta til sjöunda áratug síðustu aldar fæddust stórir árgangar heyrnarlausra barna sem þýðir að flestir heyrnarlausra eru á milli fimmtugs og sjötugs. Ástæðan er faraldur sjúkdóma sem mæðurnar fengu, meðal annars rauðir hundar.

„Aðalástæða þess að færri fæðast heyrnarlausir í dag er bætt mæðra- og ungbarnavernd. Bólusett hefur verið fyrir ýmsum sjúkdómum, fylgst er betur með mæðrum á meðgöngu og fyrirburar fá betri meðhöndlun,“ segir Ingibjörg Hinriksdóttir, yfirlæknir á Heyrnar- og talmeinastöð Íslands.

Það eru fyrst og fremst veirusýkingar og ættgengi sem veldur heyrnarleysi frá fæðingu í dag. Talið er að um 0,01 prósent barna fæðist heyrnarlaus eða um eitt barn á ári á Íslandi. Af þeim börnum fara langflest í kuðungsígræðslu sem gerir þeim kleift að heyra, beita tungumálinu og taka virkari þátt í samfélagi heyrandi manna. Með hækkandi meðalaldri og fleiri kuðungsígræðslum er þó ekki þar með sagt að heyrnarlausum muni fækka, því þótt einstaklingur sé með kuðungsígræðslu hættir hann ekki að vera heyrnarlaus.

Heiðdís dögg Eiríksdóttir
„Það eru vissulega færri í dag sem eru hreint og beint heyrnarlausir,“ segir Daði Hreinsson, framkvæmdastjóri Félags heyrnarlausra.

„En kuðungsígræðslur virka í raun eins og heyrnartæki. Fötlunin er enn til staðar og einstaklingurinn er heyrnarlaus. Þar að auki verður heyrnin ekki fullkomin og líkaminn getur hafnað tækninni. Því er svo mikilvægt að heyrnarlaus börn læri líka táknmál.“

Heiðdís Dögg Eiríksdóttir segir flest börn sem fá kuðungsígræðslu tileinka sér íslensku en eingöngu sum tvítyngi, það er íslensku og táknmál. Það þýðir að þeim sem nota íslenskt táknmál fer vissulega fækkandi og líkur á að samfélag heyrnarlausra breytist mikið í kjölfarið. „Hlutverk Félags heyrnarlausra breytist með breytingum í samfélaginu og breyttum þörfum. Þannig er fólk með kuðungsígræðslu nýr hópur með nýja hagsmuni sem við berjumst fyrir. Einnig er alltaf mikilvægt að aðgengi að táknmáli sé til staðar.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×