Innlent

Sjúklingarnir borga: Enn ein blauta tuskan frá stjórnvöldum

Jóhanna Margrét Einarsdóttir skrifar
Gylfi Arnbjörnsson
Gylfi Arnbjörnsson Vísir/Vilhelm
„Ég hélt að það ætti að vera kyrrð um gjaldskrárhækkanir hins opinbera. Verið er að hækka gjöld á fólki sem hefur ekkert val um hvort það nýtir þjónustuna eða ekki,“ segir Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ.

Þátttaka sjúklinga í kostnaði vegna sérfræðilækna hækkaði í byrjun mánaðarins um 4,9 prósent að meðaltali. Sjúkratryggingar Íslands sögðu að hækkanirnar mætti fyrst og fremst rekja til gjaldskrárhækkana sérfræðilækna. Sjúkratryggingar sömdu við sérfræðilækna, sem höfðu verið samningslausir frá 2011, í byrjun janúar.

„Okkur var sagt í byrjun janúar að samningar við sérfræðilækna rúmuðust innan sameiginlegrar stefnu verkalýðshreyfingarinnar, atvinnurekenda og stjórnvalda um stöðugleika. Að hækka gjaldskrána nú ber ekki vott um stöðugleika,“ segir Gylfi.

Almenningur sé alltaf að borga meira og meira fyrir læknisþjónustu. Gylfi segist velta því fyrir sér hvort það sé stefna stjórnvalda að velta öllum hækkunum í heilbrigðiskerfinu yfir á sjúklinga. „Þetta er enn ein blauta tuskan frá stjórnvöldum,“ segir hann.

Kom á óvart Margir urðu undrandi þegar í ljós kom að greiðsluþátttaka almennings vegna kostnaðar við sérfræðilæknaþjónustu hafði hækkað um 4,9 prósent að meðaltali. Nordicphotos/Getty
Kristján Guðmundsson, formaður samninganefndar sérfræðilækna, sagði í samtali við Fréttablaðið þegar samningur Sjúkratrygginga og lækna var undirritaður í janúar að hann myndi lækka kostnað sjúklinga og er enn þeirrar skoðunar.

„Á undanförnum árum má segja, í grófum dráttum, að ríkið hafi greitt 70 prósent af kostnaði við sérfræðilæknaþjónustu en sjúklingar 30 prósent. Á meðan sérfræðilæknar voru samningslausir rukkuðu þeir aukagjald og það var mat manna að hlutfall sjúklinga í kostnaðinum væri orðið rúm 40 prósent. Við samninginn lækkaði það aftur niður í 30 prósent,“ segir Kristján og bætir við að heilbrigðisráðherra ákveði hverju sinni hversu stóran hlut sjúklingurinn borgar og hvernig.

Nú hafi ráðherra ákveðið að hækka sjúklingagjaldið örlítið en heildarverð til sérfræðilækna breytist ekki. Þeir fái það sama í sinn hlut og þeir fengu á fyrri helmingi ársins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×