Erlent

Ekkert lát á árásum á Gasa eftir sjö daga

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Eldflaugar Ísraelsmanna hafa gereyðilagt byggingar á Gasa-svæðinu. Árásirnar héldu áfram í gær.
Eldflaugar Ísraelsmanna hafa gereyðilagt byggingar á Gasa-svæðinu. Árásirnar héldu áfram í gær. Fréttablaðið/AP
Yfirvöld í Palestínu segja 175 einstaklinga hafa látist í árásum Ísraelsmanna á Gasa-svæðið sem hafa nú staðið yfir í sjö daga. Sagt er að um 77 prósent þeirra séu almennir borgarar. Tala særðra er um þrettán hundruð.

Í gær lenti eldflaug Ísraelsmanna á þremur þjálfunarbúðum Hamas-liða en enginn slasaðist í þeirri árás. Ekki fór eins vel um helgina þegar sprengja frá Ísrael lenti á heimili fyrir fatlaða og varð tveimur konum að aldurtila. Önnur orsakaði dauða átján manna fjölskyldu á einu andartaki.

Ísraelar dreifðu tilkynningum yfir Gasa-svæðið úr lofti yfir helgina þar sem íbúum þess er gert að yfirgefa svæðið ellegar láta lífið. Hamas-liðar, sem stjórna Gasa, sögðu hins vegar íbúum að vera um kyrrt.

„Ég þarf ekki að hlýða þeim,“ sagði Ahmed, íbúi á svæðinu, í samtali við fréttastofu CNN um skipanir Hamas. Hann fór með fjölskyldu sína í leigubíl á öruggari stað á svæðinu. „Ég geri það sem er best fyrir okkur.“ Sautján þúsund flóttamenn hafa leitað skjóls í tuttugu skólum á svæðinu samkvæmt upplýsingum frá Sameinuðu þjóðunum.

Ísraelsk yfirvöld neita að hætta árásum þrátt fyrir að alþjóðasamfélagið hafi ítrekað beðið um vopnahlé. Þau halda því fram að Hamas-samtökin feli vopn á sjúkrahúsum, á heimilum Palestínumanna, í moskum og skólum og hætta ekki á meðan Hamas-samtökin halda áfram að senda flugskeyti á Ísrael. Enginn Ísraeli hefur látist í þessum árásum samkvæmt upplýsingum frá AP-fréttastofunni en nokkrir hafa slasast alvarlega.

Forsætisráðherra Ísraels, Benjamin Netanyahu, segir að árásirnar muni aðeins aukast á komandi dögum. „Við vitum ekki hvenær þetta tekur enda,“ segir hann. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×