Innlent

Ekur með íslenskan fisk til tuga borga í Danmörku og Svíþjóð

Ingibjörg Bára Sveinsdóttir skrifar
Guðbjörn Elíson og Amanda Ingibjörg Einarsdóttir, eiginkona hans, við bílinn sinn sem er hlaðinn íslenskum matvælum.
Guðbjörn Elíson og Amanda Ingibjörg Einarsdóttir, eiginkona hans, við bílinn sinn sem er hlaðinn íslenskum matvælum.
Fjórum sinnum á ári ekur Guðbjörn Elíson, eigandi netverslunarinnar Islandsfisk, frá Varberg á vesturströnd Svíþjóðar til viðskiptavina sinna í mörgum tugum  borga og bæja í Svíþjóð og Danmörku með frystan fisk, lambakjöt og sælgæti frá Íslandi.

„Fjöldi viðskiptavina á skrá hjá okkur er um 2.500 og þeim fjölgar ört. Venjulega ek ég með vörur til 300 til 400 viðskiptavina í hverri ferð. Mikill meirihluti viðskiptavina hefur verslað við okkur frá því að við stofnuðum netverslunina 1990,“ segir Guðbjörn sem einnig er farinn að aka með íslensk matvæli til annarra landa Norður-Evrópu. Hann kveðst gista á hótelum á ferðum sínum og fá þar rafmagn fyrir litla vörubílinn sinn sem í er bæði frystir og kælir.

Það eru ekki bara Íslendingar í þessum löndum sem eru sólgnir í íslenska matinn, að sögn Guðbjarnar. „Þetta spyrst út mann frá manni. Svíar eru til dæmis um þriðjungur viðskiptavina netverslunarinnar. Svíar og Danir sem smakka íslenska fiskinn verða fastir viðskiptavinir og þeir fara á hnén og biðja mig um að hætta ekki þessum ferðum. Dönsk kona sem er viðskiptavinur hjá mér lét systur sína, sem býr á vesturströnd Svíþjóðar og er sjávarlíffræðingur, vita af netversluninni og nú versla þrettán manns í kringum hana við mig. Svíarnir vilja heldur kaupa frysta fiskinn frá Íslandi en ferska fiskinn hér.“

Fiskur er sú vara sem mest er keypt í netversluninni, að sögn Guðbjarnar. „Vinsælasta varan er sjófryst ýsuflök en línufiskur sækir mikið á. Þar á eftir kemur lambakjötið. Ég er alltaf með saltkjöt, svið og slátur til sölu og árstíðabundna vöru eins og hangikjöt og konfekt um jól og þorramat á þorranum auk páskaeggja um páska.“

Guðbjörn selur ekki bara einstaklingum íslensk matvæli heldur selur hann einnig til veitingastaða, dagheimila, stóreldhúsa og verslana. „Ég sel í 20 búðir hér í sýslunni. Þetta er bara rétt að byrja. Gæði íslenska matarins spyrjast fljótt út.“

Viðskiptavinir islandsfisk.se þurfa ekki að vera í neinum vandræðum með matreiðsluna því að á vef netverslunarinnar má sjá uppskriftir að djúpsteiktum ýsuflökum með camembert-fyllingu, karríplokkfisk og saltfiskrúllum svo dæmi séu tekin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×