Innlent

Sakamálalög eiga ekki við dómara

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Samherji vill meina að Ingveldur hafi brotið lög með að heimila húsleit hjá Samherja, bæði í Reykjavík og á Akureyri.
Samherji vill meina að Ingveldur hafi brotið lög með að heimila húsleit hjá Samherja, bæði í Reykjavík og á Akureyri. Vísir/Pjetur
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur vísað frá kæru dótturfélags Samherja á hendur Ingveldi Einarsdóttur hæstaréttardómara.

Félagið, Polaris Seafood, kærði Ingveldi í júní fyrir að hafa í mars 2012 veitt Seðlabankanum húsleitarúrskurði en við málsmeðferð úrskurðanna telur félagið að hún hafi vanrækt könnun lagaskilyrða, ekki boðað fulltrúa varnaraðila til þinghalds og hvorki þingmerkt né varðveitt skjöl málanna.

Í niðurstöðu lögreglustjóra segir að samkvæmt lögum sé það ekki dómari heldur sá aðili sem framkvæmir hina ólögmætu rannsóknaraðgerð sem geti bakað sér refsiábyrgð. Þannig sé það Seðlabanki Íslands, sem í þessu tilfelli framkvæmdi húsleitina, en ekki dómarinn sem lögin ná yfir. Í því ákvæði hegningarlaga, sem Samherji telur að dómarinn hafi gerst sekur um, er sérstaklega tilgreint að ef dómari beitir ólöglegri aðferð til að meðal annars framkvæma ólöglega leit eða leggja að ólögum hald á skjöl varði það sektum eða fangelsi.

Þá kemur einnig fram í niðurstöðu lögreglunnar að það að vanrækja þingmerkingu skjala eða varðveislu þeirra varði ekki við ákvæði refsilaga. Telur lögreglan því ekki efni til að hefja rannsókn út af kærunni.

Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, er óánægður með niðurstöðuna og hyggst kæra ákvörðunina til ríkissaksóknara.

„Þetta er athyglisvert að lögreglan telji, eftir nokkurra daga athugun, að það sé engin refsiheimild sem nær yfir það þegar gögn hverfa í jafn alvarlegu máli og þegar húsleit og haldlagning er heimiluð. Við munum að sjálfsögðu kæra þessa ákvörðun til ríkissaksóknara,“ segir Þorsteinn í samtali við Fréttablaðið.


Tengdar fréttir

Óljóst hvort dómar eigi að geyma gögn

Dómstólar landsins viðhafa ekki sama verklag í hlerunar- og húsleitarmálum. Allir aðrir dómstólar en Héraðsdómur Reykjavíkur geyma öll gögn. Dómstjóri Héraðsdóms Reykjavíkur segir vafa leika á hvernig túlka skuli lögin en segist fara að lögum.

Hæstaréttardómari kærður fyrir brot í opinberu starfi

Dótturfyrirtæki Samherja hefur lagt fram kæru á hendur Ingveldi Einarsdóttur hæstaréttardómara fyrir brot á almennum hegningarlögum. Hún er kærð fyrir vanrækslu í starfi við veitingu úrskurðar um húsleit.

Lögreglan eini aðilinn sem geti upplýst

Dómarinn sem dótturfélag Samherja kærði fyrir brot í opinberu starfi veitti úrskurði til leitar og haldlagningar hjá 29 mismunandi fyrirtækjum á rúmlega tveimur tímum frá því honum barst beiðni frá Seðlabankanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×