Innlent

Tíundi hver kennari ekki undirbúinn fyrir öll fög

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Athugun á kennslu kennara er verulega miklu minni hér á landi en í TALIS-löndum að meðaltali.
Athugun á kennslu kennara er verulega miklu minni hér á landi en í TALIS-löndum að meðaltali. vísir/gva
Hlutfall grunnskólakennara á Íslandi sem segja námsefni, kennslufræði og reynslu í þeim námsgreinum sem þeir kenna í skólanum hafa verið hluta af menntun þeirra eða þjálfun er lágt í samanburði við önnur lönd.

Þetta kemur fram í TALIS-rannsókninni sem var gerð á síðasta ári. Rannsókninni var beint til kennara og skólastjórnenda í 34 löndum og er ætlað að veita innsýn í starfsaðstæður kennara og kennsluhætti í löndunum.

Menntun kennara í hinum löndunum í rannsókninni virðist miðast meira við einstakar kennslugreinar í samanburði við kennaramenntun hér á landi.

Ríflega einn af hverjum tíu kennurum hefur ekki fengið neina menntun eða reynslu í nokkurri þeirra námsgreina sem viðkomandi kennir. Aðeins rúmlega fjörutíu prósent íslenskra kennara segja að þeir hafi fengið undirbúning í kennaranámi fyrir allar þær námsgreinar sem þeir kenna. Íslenskir kennarar eru í heildina heilum tíu prósentustigum fyrir neðan meðaltal TALIS hvað varðar hversu undirbúnir þeir telja sig vera fyrir kennsluna.

Tengt undirbúningi hefur eingöngu þriðjungur kennara hér á landi tekið þátt í nýliðaþjálfun í upphafi ferilsins. Störf íslenskra kennara eru einnig sjaldan metin á formlegan hátt eða í tugum prósenta færri tilfella en í samanburðarlöndunum.

Dæmi um starfsmat er bein athugun stjórnenda á kennslu, nemendamat eða mat á þekkingu kennarans á kennsluefni. 

Þriðjungur íslenskra skólastjóra metur aldrei kennara formlega og tæplega helmingur gerir það einu sinni á ári.

Mesti munurinn á TALIS og Íslandi snýr þó að samstarfi kennaranna því um tvöfalt fleiri kennarar á Íslandi fylgjast aldrei með bekkjum annarra kennara í þeim tilgangi að meta starfið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×