Innlent

Ný flóðlýsing án útboðs: ÍTR vill að borgin greiði 50 milljónir í verkið

Sveinn Arnarsson skrifar
Framkvæmdir eru hafnar við uppsetningu nýrrar flóðlýsingar á Laugardalsvelli.
Framkvæmdir eru hafnar við uppsetningu nýrrar flóðlýsingar á Laugardalsvelli. frettabladid/Pjetur
Framkvæmdir við endurnýjun flóðlýsingar á Laugardalsvelli fóru ekki í útboð og keppinautum Ó. Johnson & Kaaber, þess sem fékk verkið, var ekki gert kleift að gera tilboð í framkvæmdina.

Framkvæmdirnar eru á vegum KSÍ og er talið að heildarkostnaður við verkið nemi rúmlega 70 milljónum króna. Samkvæmt fyrirliggjandi samningsdrögum mun Reykjavíkurborg greiða um 50 milljónir króna á þremur árum vegna framkvæmdanna og eignast síðan ljósin. Verkið var ekki boðið út heldur gerður samningur við Ó. Johnson & Kaaber ehf. um kaupin.

Ýmsir af keppinautum Ó. Johnson & Kaaber sem Fréttablaðið hefur rætt við eru afar ósáttir við vinnubrögð KSÍ og Reykjavíkurborgar og telja rétt að bjóða slík verkefni út.

Arnar Þór Hafþórsson, sölu- og markaðsstjóri Jóhanns Ólafssonar & Co, keppinautar Ó. Johnson & Kaaber, segist undrast það verklag að enginn annar hafi fengið að bjóða í verkið. „Okkar fyrirtæki er með umboð fyrir Siteco, mjög vandaða vöru sem er notuð á um 90 prósent allra knattspyrnuvalla í Noregi til að mynda, við aðstæður sem eru afar líkar þeim sem gerast á Íslandi. Ég fullyrði það að við erum bæði samkeppnishæfir í verði og gæðum og gætum auðveldlega unnið verkið fyrir haustið,“ segir Arnar Þór.

Laugardalsvöllur er eign Reykjavíkurborgar en Knattspyrnusamband Íslands hefur verið með þjónustusamning við borgina um reksturinn. Sá samningur er útrunninn. Á næsta fundi borgarráðs liggja fyrir tveir samningar um völlinn, annars vegar nýr þjónustusamningur um rekstur svæðisins og annar um flóðlýsinguna.

Geir Þorsteinsson Formaður KSÍ.frettabladid/valli
Geir Þorsteinsson, formaður KSÍ, segir í samtali við Fréttablaðið að sérfræðingur frá UEFA hafi komið til landsins til að fara yfir ýmis mál vegna undankeppni Evrópumóts landsliða sem hefst í haust. „Gerð var athugasemd við flóðlýsingu Laugardalsvallar, hún væri ekki nægilega góð og þá þurftum við að vinna hlutina hratt. Við höfðum ekki tíma til að fara í langt og strangt útboðsferli. Þessi mál þurfti að ákveða hratt og vel.“

Reykjafell, Rönning og Ískraft eru einnig keppinautar á markaði fyrir flóðlýsingu. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins fengu þessi fyrirtæki ekki tækifæri til að gera tilboð í verkið. 

Leitað var svara hjá Reykjavíkurborg hvort ekki væri eðlilegt að viðhafa útboð við svo viðamikil kaup á kostnað skattgreiðenda. Eva Einarsdóttir, formaður ÍTR, vildi ekki tjá sig um málið fyrr en eftir borgarráðsfundinn á fimmtudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×