Innlent

Prófessor telur kjósendur opnari fyrir nýjungum: Mikið rót komið á hollustu við flokka

Freyr Bjarnason skrifar
Hið góða gengi endurspeglar óánægju kjósenda með það sem fyrir var.
Hið góða gengi endurspeglar óánægju kjósenda með það sem fyrir var. Fréttablaðið/GVA
Gengi nýrra flokka í skoðanakönnunum vegna komandi sveitarstjórnarkosninga hefur verið gott. Björt framtíð og Píratar fá víðast hvar gott fylgi á meðan fjórflokkurinn á víða undir högg að sækja.

Gunnar Helgi Kristinsson, prófessor í stjórnmálafræði, telur ástæðuna í meginatriðum vera þá að mikið rót hafi komist á hollustu kjósenda við flokkana í hruninu og líka í tíð vinstri stjórnarinnar.

„Frá þeim tíma eru kjósendur opnari fyrir nýjungum. Framsóknarflokkurinn sýndi að vísu í fyrra að gömlu flokkarnir eiga alveg möguleika á þessu fylgi en hins vegar er núna sérstaklega góð aðstaða fyrir flokka sem hafa aldrei verið í ríkisstjórn,“ segir Gunnar Helgi.

Að sögn Gunnars Helga eru málefnin ekki endilega vera helstu ástæðuna fyrir hinu góða gengi heldur endurspegli það meira óánægju kjósenda með það sem fyrir var.

Grétar þór eyþórsson
„Ég held að það sé alveg ljóst, hvort sem þú lítur á Bjarta framtíð eða Pírata, að þar eru ekki mjög skýrar málefnaáherslur í mörgum þeim málum sem sveitarfélögin fjalla um sérstaklega,“ segir hann. „Gott dæmi er Ísafjörður þar sem Björt framtíð samkvæmt könnun mældist með drjúgt fylgi áður en flokkurinn var kominn fram.“

Annar prófessor í stjórnmálafræði, Grétar Þór Eyþórsson, telur að meginlínurnar muni lítið breytast frá því sem komið hefur fram í nýjustu könnunum.

„Auðvitað verða einhverjar sveiflur en miðað við þær kannanir sem eru að birtast í dag og héðan af fram að kosningum þá munu þær verða mjög nálægt lagi,“ segir Grétar.

Spurður hvers vegna Björt framtíð og Píratar hafi náð fótfestu en ekki Dögun segir hann það vafalítið vinna með Bjartri framtíð og Pírötum að hafa komist inn á þing. 

„Dögun er að mælast á Akureyri og í Kópavogi með svipað fylgi og til Alþingis í fyrra. Flokkurinn er með heildstæðan stefnumálapakka en það er eins og þessi málflutningur nái ekki í gegn í þessari flóru,“ segir Grétar Þór.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×