Innlent

30 milljónir töpuðust á einum degi

Freyr Bjarnason skrifar
Framkvæmdastjóri Kötlu DMI og Viator segist hafa tapað rúmlega 30 milljóna króna veltu á einum degi.
Framkvæmdastjóri Kötlu DMI og Viator segist hafa tapað rúmlega 30 milljóna króna veltu á einum degi. Fréttablaðið/Valli
„Þetta hefur mikil áhrif á okkur. Bara á föstudaginn fyrir tveimur vikum þegar verkfallið var í tólf tíma þá töpuðum við rúmlega 30 milljóna króna veltu, bara á einum degi þegar tveir hópar hættu við,“ segir Pétur Óskarsson, framkvæmdastjóri fyrirtækjanna Kötlu DMI og Viator. Þau þjónusta þúsundir erlendra ferðamanna á Íslandi á ári hverju, flesta frá Mið-Evrópu.

Icelandair hefur þurft að aflýsa að meðaltali fimm flugferðum á dag vegna aðgerða flugmanna sem vilja ekki vinna yfirvinnu. Ferðaþjónustuaðilar eru uggandi yfir ástandinu og í ályktun sem Samtök ferðaþjónustunnar sendu frá sér í gær krefjast þau þess að starfsmann Icelandair láti af aðgerðum sínum. „Hægt er að reikna tapaðar tekjur en ímynd og orðspor Íslands sem áfangastaðar fyrir ferðamenn er ómetanlegt,“ segir í ályktuninni en um níutíu flugferðum hefur nú þegar verið aflýst sem hefur haft áhrif á hátt í tólf þúsund farþega.

Pétur segist upplifa mikið vantraust af hálfu gesta sinna til íslenskrar ferðaþjónustu vegna ástandsins. „Að vera með hnút í maganum út af heimferðinni truflar rosalega upplifun gestanna af því að vera á Íslandi í fríi. Þjóðverjar leggja til dæmis gríðarlega mikið upp úr því að áætlanir standist. Þetta er að skaða nafn og orðstír Icelandair alveg svakalega. Vörumerkið Ísland er líka að skaðast og það getur tekið langan tíma að laga það,“ segir hann og bætir við að álagið sé venjulega mikið á þessum tíma við að skipuleggja sumarið 2015. „Það er rosalega erfitt að vera með allt í uppnámi og „kaos“. Við erum vön að takast á við náttúruhamfarir, Múlakvísl, Eyjafjallajökul og svo framvegis, en þetta er alveg glatað að vera með svona manngerðar „katastrófur“ sem setja allt á hliðina hjá okkur.“

Gylfi Freyr Guðmundsson, aðstoðarhótelstjóri Grand Hótels Reykjavík, segir áhrifin vegna ástandsins virka í báðar áttir. „Við missum viðskiptavini sem geta ekki komið til okkar en á móti eru gestir sem festast á landinu og þurfa aukagistingu. Það vegur aðeins á móti en við verðum samt fyrir töluverðu tapi,“ segir hann.

Fyrsta verkfall flugmanna hafði þau áhrif að tvö til þrjú hundruð gistinætur töpuðust hjá hótelinu. „Þó svo að við fáum 40 til 50 nætur á móti þá er þetta gríðarlegt tap.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×