Innlent

Mest ónæði af drykkju á Íslandi

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Tölur WHO sýna að 34,9% Íslendinga sem drekka stunda ölvunardrykkju en 34,5% Svía.
Tölur WHO sýna að 34,9% Íslendinga sem drekka stunda ölvunardrykkju en 34,5% Svía. Fréttablaðið/Hari
Unnið er að samanburðarkönnun á Norðurlöndum á áfengisneyslu fólks og áhrifum hennar á aðra en neytandann.

Rannsóknin kemur í kjölfar nýbirtra talna Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO) á áfengisdrykkju og heilsufarsáhrifum hennar víða um heim og könnunar sem Capacent vann fyrir Landlæknisembættið og birti í mars. Þar voru bornar saman tölur um áfengisnotkun og áhrif hennar árin 2001, 2004 og 2013.

Rafn M. Jónsson, verkefnisstjóri áfengis- og vímuvarna hjá Landlækni, segir niðurstaðna að vænta í samnorræna samanburðinum í haust.

„En við virðumst til dæmis verða fyrir meiri áhrifum af neyslu annarra en Svíar þó að við drekkum minna, svona samkvæmt fyrstu vísbendingum,“ segir Rafn. „Við drekkum illa um helgar og verðum fyrir meiri röskun vegna ölvunar.“

Undir röskun getur til dæmis fallið beint áreiti frá fullu fólki og eins að verða ekki svefnsamt vegna háreysti og áfengisláta.

Hér segir Rafn þjóðina þó lítið hafa bætt við sig undanfarin ár í svokallaðri ölvunardrykkju (sem einnig hefur verið kölluð óhófsdrykkja, eða binge drinking), en aukningin hafi hins vegar verið á öðrum vígstöðvum, svo sem í neyslu með mat.

„Þegar bjórinn bættist við þá fórum við úr fjórum áfengislítrum á mann á ári í sjö lítra.“

30% sögðust árið 2013 hafa orðið fyrir ónæði vegna drukkins einstaklings á skemmtistað eða í einkasamkvæmi. Árið 2001 sögðust 13% hafa orðið fyrir slíku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×