Innlent

Flugstjórar vilja margfalt meiri hækkun en ASÍ fékk

Snærós Sindradóttir skrifar
Flugstjóri með fimmtán ára starfsreynslu hefur ríflega milljón krónur í föst laun á mánuði.
Flugstjóri með fimmtán ára starfsreynslu hefur ríflega milljón krónur í föst laun á mánuði. Mynd/HAG
Flugmenn hjá Icelandair vilja margfalt meiri hækkun en samið hefur verið um á almennum markaði samkvæmt heimildum Fréttablaðsins. Þeir hafa hafnað samningi með almennri launahækkun upp á 2,8 prósent sem gildir til eins árs.

Samkvæmt kjarasamningum Félags íslenskra atvinnuflugmanna (FÍA) við Icelandair hefur flugstjóri með fimmtán ára starfsreynslu ríflega milljón krónur í föst laun á mánuði. Byrjunarlaun nýs flugmanns hjá fyrirtækinu eru um hálf milljón króna á mánuði.

Boðað hefur verið til tólf tíma verkfalls hjá félaginu þann 9. maí næstkomandi.

„Við erum ekki partur af ASÍ og erum ekki skuldbundnir af því,“ segir Hafsteinn Pálsson, formaður FÍA. Samningaviðræður hafa farið fram síðastliðnar vikur en ekki hefur þokast í átt að samkomulagi.

„Það hefur ekkert gengið. Þetta snýst ekki bara um launaprósentur heldur kjarasamninginn í heild sinni,“ segir Hafsteinn.

Enginn flugmaður greiddi atkvæði gegn verkfalli. Í fréttum Stöðvar 2 á miðvikudag sagði Hafsteinn Pálsson, formaður FÍA, flugmenn ekki vera að loka landinu því farþegar gætu enn ferðast með öðrum flugfélögum hingað til lands.

Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, segir ummælin hafa vakið furðu hjá starfsfólki Icelandair.

„Við trúum því ekki að formaðurinn mæli fyrir munn allra flugmanna þegar hann hvetur fólk til þess að beina viðskiptum sínum til samkeppnisaðila.“

Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, segir að verkfall muni hafa verulega neikvæð áhrif á afkomu ferðaþjónustunnar.

„Við höfum miklar áhyggjur af þessum boðuðu verkfallsaðgerðum. Við erum að áætla að tapaðar gjaldeyristekjur séu milljarður á dag á þessum árstíma. Hver einasta klukkustund í þessari óvissu hefur mikil áhrif.“


Tengdar fréttir

Flugmenn í verkfall

Félag íslenskra atvinnuflugmanna (FÍA) hefur boðað ótímabundið yfirvinnubann flugmanna Icelandair ehf. sem mun hefjast hinn 9. maí klukkan sex að morgni.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×