Innlent

Niðurstöður skýrslunnar byggi á óskhyggju

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks og formaður utanríkismálanefndar, segir túlkun á niðurstöðum byggjast á óskhyggju.
Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks og formaður utanríkismálanefndar, segir túlkun á niðurstöðum byggjast á óskhyggju.
Birgi Ármannssyni, þingmanni Sjálfstæðisflokks og formanni utanríkismálanefndar, sýnast ekki nýjar staðreyndir eða upplýsingar vera í nýrri Evrópuskýrslu Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands.

„Mér sýnist margt í niðurstöðunum og túlkun á þeim byggja á dálítilli óskhyggju,“ segir Birgir.

„Túlkunin ber vitni um að menn geri sér væntingar um að það sem óljóst er, varðandi sérlausnirnar, falli Íslendingum í vil yrði viðræðunum haldið áfram. Sú túlkun virðist eingöngu byggð á óljósum ummælum embættismanna í Brussel og þessar væntingar greina á milli þessarar skýrslu og skýrslu Hagfræðistofnunar.“

Skýrsluhöfundar kynna skýrsluna fyrir utanríkismálanefnd í dag. „Margt gefur tilefni til umfjöllunar og umræðu í nefndinni og ég tel að það sé vel þess virði að fara yfir skýrsluna og skoða hvaða forsendur liggja að baki ályktununum.“

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra
Breytir ekki afstöðu stjórnvalda

„Það er gott að skýrslan sé komin fram. Ég verð að viðurkenna að ég hef ekki náð að kynna mér hana í ystu æsar en hef lesið samantekt og helstu niðurstöður," segir Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra. 

„Skýrslan bætir ekki miklu við það sem hefur komið fram en það kemur þó fram að ferlið hefur þyngst mjög frá því sem það var þegar Norðmenn voru einnig í ferlinu og þar hafði makríll og Icasave mikil áhrif. En annars sé ég ekkert nýtt í skýrslunni á þessum tímapunki sem breytir afstöðu stjórnvalda um að draga umsóknin tilbaka."

Árni Páll Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar
Sérlausnir höfðu verið viðurkenndar 

Í fyrirspurn Árna Páls Árnasonar, þingmanns Samfylkingarinnar, kemur fram að honum þyki skýrslan vekja mikla athygli því að í henni komi fram með skýrum hætti að viðræður um aðild að Evrópusambandinu hafi verið í ágætisgangi og fengist hafði ágætisárangur í ferlinu sama við hvað sé miðað. 

„Ljóst er að sérlausnir höfðu verið viðurkenndar í ferlinu og því ekki hægt að halda því fram að útilokað sé að fá sérlausnir í aðildarumsóknarferlinu. Það kemur líka skýrt fram að hægt er að fá fullnægjandi lausnir fyrir sjávarútvegshagsmuni Íslands.

En efnahagskaflinn hlýtur að vekja mesta athygli þar sem rakinn er sá mikli velferðarábati sem við mundum njóta með upptöku evrunnar sem alþjóðlega viðurkennds gjaldmiðils sem hægt er að eiga viðskipti með hér sem annars staðar." 

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra
Ósamstaða í ríkisstjórn valdið töfum

Í svari Bjarna Benediktssonar við fyrirspurn Árna Páls kemur fram að hann hafi ekki kynnt sér efni skýrslunnar nægilega vel en hann taki eftir því að það séu nokkrar meginniðurstöður komnar í umræðuna, að það hafi verið ágætisgangur í viðræðunum.

„Gott og vel. Það gengur samt mun hægar en að var stefnt. Í öðru lagi segir víst einhvers staðar í skýrslunni að ósamstaða í ríkisstjórninni, ósamstaða um hvernig vinna ætti að framgangi mála í einstökum málaflokkum hafi valdið töfum, sem er athyglisvert, ekki síst í ljósi þeirrar umræðu sem átt hefur sér stað að undanförnu um hvort það sé yfir höfuð mikilvægt að ríkur stuðningur sé í ríkisstjórn við málið eða ekki. Sumir vilja halda því fram að það skipti bara engu máli.“

Margrét Kristmannsdóttir, formaður Samtaka verslunar og þjónustufréttablaðið/gva
Sýnir að klára þurfi aðildarsamninginn

„Það sem kemur þarna fram sýnir að það er mjög erfitt að segja til um það hvernig samning við munum fá, hvort samningurinn við ESB muni reynast þjóðinni til góðs eða ekki, því það er einfaldlega of mörgum spurningum ósvarað," segir Margrét Kristmannsdóttir, formaður Samtaka verslunar og þjónustu.„Þeim fáum við ekki svarað nema við klárum aðildarsamninginn í stað þess að tala í viðtengingarhætti og gefa sér forsendur. Eins og í sjávarútvegsmálum, enda hefur engin þjóð sótt um í ESB þar sem þau mál vega svona þungt í efnahag landsins. En við getum ekki lagt mat á heildarhagsmuni fyrr en við erum komin með öll þessi svör og þau fáum við með því að klára ferlið.“

Össur Skarphéðinsson, þinmaður Samfylkingarinnar
Samningar voru á býsna góðri leið

„Meginniðurstaðan er sú að það mælir allt með því að viðræðunum verði haldið áfram,“ segir Össur Skarphéðinsson, þingmaður Samfylkingarinnar.„Saman tel ég að þessi skýrsla og skýrsla Hagfræðistofununar sýni að það voru engin sérstök ljón í veginum sem ekki voru þekkt áður. Það voru ákveðnar spurningar sem þurfti að svara varðandi sjávarútvegsmálin – það má heita að það sé það eina óþekkta í þessu. Svörin við því fást ekki nema látið verði reyna á samning. Þess vegna finnst mér ljóst að það þurfi að klára viðræðurnar. En kannski er meginniðurstaðan sú að samningarnir voru á býsna góðri leið. Mikill undirbúningur sem var búið að vinna og talsverður skilningur sem var búið að ná.“

Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins
Byggt á nafnlausum embættismönnum

„Ég er ekki búin að lesa skýrsluna, því hún var bara birt í [gær]morgun. En það sem ég geri alvarlegar athugasemdir við, er að sjálfsögðu sjávarútvegskaflinn sem byggður er upp á andlitslausum og nafnlausum embættismönnum á göngunum í Brussel,“ segir Vigdís Hauksdóttir, þinkona Framsóknarflokksins og formaður fjárlaganefndar. 

„Þetta bara herðir mig frekar en hitt að telja hag Íslands betur borgið fyrir utan Evrópusambandið. Vegna þessara haldlausu raka sem komu hér fram. Ýmislegt sem ekki stenst og er hrakið beinlínis í skýrslu Hagfræðistofnunar þegar þessar tvær skýrslur eru lesnar saman.“

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson vildi ekki tjá sig um málið að svo stöddu þar sem hann hafði ekki náð að kynna sér skýrsluna nægilega vel.


Tengdar fréttir

Vigdís segir rök í ESB-skýrslu vera haldlaus

"Mér finnst þessi gagnrýni afskaplega ómakleg og bið hana vinsamlega að lesa úttektina áður en hún kemur með þvílíkar yfirlýsingar," segir einn skýrsluhöfunda

Ísland áhrifalaust með EES-samningum

Pia Hanson, forstöðukona Alþjóðamálastofnunar, gagnrýndi EES-samninginn þegar hún kynnti skýrslu um Evrópumál. Hún sagði Ísland hafa innleitt tvo þriðju laga og reglna Evrópusambandsins nú þegar.

Ekkert vit í að slíta

Skýrsla Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands fyrir samtök á vinnumarkaði er mikilvægt innlegg í umræðuna um umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu. Nálgunin í skýrslunni er ólík þeirri sem var notuð í skýrslu Hagfræðistofnunar HÍ fyrir ríkisstjórnina, enda verkefninu stillt upp með öðrum hætti. Almennt er tónninn í þessari skýrslu jákvæðari hvað varðar möguleika Íslands á að ná hagfelldum samningi við ESB.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.