Varamaðurinn Jón Daði Böðvarsson tryggði Íslendingaliðinu Viking sætan 0-1 útisigur á Lilleström í dag.
Jón Daði skoraði eina mark leiksins fimm mínútum fyrir leikslok. Hann lék þá fram hjá markverðinum og skoraði í tómt markið. Þriðja markið hans í þrem leikjum.
Fimm Íslendingar hófu leikinn. Indriði Sigurðsson, Sverrir Ingi Ingason, Steinþór Freyr Þorsteinsson og Björn Daníel Sverrisson voru allir í byrjunarliði Viking og Pálmi Rafn Pálmason var í liði Lilleström. Jón Daði kom svo af bekknum.
Viking er með fimm stig eftir fyrstu þrjár umferðirnar í norska boltanum og Lilleström fjögur.
