Lífið

Eiginmaðurinn tekur við leikstjórninni

Ugla Egilsdóttir skrifar
Charlotte Bøving Leikur Lene Gammelgaard í myndinni Everest.
Charlotte Bøving Leikur Lene Gammelgaard í myndinni Everest. Mynd/ Valgarður Gíslason.
„Til þess að ég komist út til að leika í kvikmyndinni Everest leggur eiginmaður minn mér lið og stekkur inn í leikstjórnina í minn stað á Svönum skilja ekki í Þjóðleikhúsinu,“ segir Charlotte Bøving.

„Benedikt Erlingsson, maðurinn minn, kemur mér til aðstoðar og heldur utan um allra síðustu æfingarnar á æfingaferlinu. Hann verður eins konar aðstoðarleikstjóri í þessari sýningu,“ segir Charlotte. Þessar óvenjulegu aðstæður komu upp vegna þess að Charlotte bauðst hlutverk í stórmyndinni Everest eftir Baltasar Kormák. „Tökur hefjast áður en æfingum lýkur á verkinu Svanir skilja ekki.“

Charlotte kemur samt sem áður ekki til með að sleppa alveg hendinni af Svönum sem skilja ekki. „Þetta er frábært verk eftir Auði Övu Ólafsdóttur,“ segir hún. Charlotte ætlar að fylgjast vel með gangi mála á Skype, og sjá til þess að eiginmaðurinn haldi rétt á spöðunum síðustu tvær vikurnar í æfingaferlinu.

„Þetta verður skemmtilegt hjónasamstarf á milli okkar, sem er afar viðeigandi, því að leikrit Auðar Övu fjallar um hjónabandið,“ segir Charlotte. Æfingar eru komnar vel af stað, og Charlotte segir að prufuáhorfendur hafi hlegið mikið á æfingu í gær. „Benedikt mætti á æfingu í gær til þess að undirbúa sig.“

Þau hjónin eru bæði leikarar og leikstjórar. Þetta er alls ekki í fyrsta sinn sem Benedikt og Charlotte vinna saman, en Charlotte lék í kvikmyndinni Hross í oss, sem Benedikt leikstýrði. 

Í Everest leikur Charlotte danska konu sem heitir Lene Gammelgaard. „Hún var fyrsta skandinavíska konan sem komst upp á Everest.“ Leikritið Svanir skilja ekki verður frumsýnt 28. febrúar í Þjóðleikhúsinu. „Ég verð í tökum í sjö vikur í Róm, London og í Ölpunum, en ég flýg heim til að vera viðstödd frumsýninguna á Svönum skilja ekki.“
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.