Innlent

Vilja rannsókn á Hlíðarfjallsslysinu

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
TF-MYX var nánast komin á hliðina er hún kom inn yfir akstursbrautina eins og sést á þessari mynd sem tekin er úr myndavél á þaki spyrnubíls sem útbúinn var tveimur gleiðlinsu myndavélum sem vísuðu fram og aftur.
TF-MYX var nánast komin á hliðina er hún kom inn yfir akstursbrautina eins og sést á þessari mynd sem tekin er úr myndavél á þaki spyrnubíls sem útbúinn var tveimur gleiðlinsu myndavélum sem vísuðu fram og aftur.
„Það virðist vera svo margt sem ekki passar í þessu ferli öllu,“ segir Mikael Tryggvason sem hyggst óska opinberrar rannsóknar á tildrögum og eftirmálum flugslyss á Akureyri fyrir fimm mánuðum.Bróðir Mikaels, Pétur Tryggvason sjúkraflutningamaður, lést í slysinu ásamt flugstjóra vélarinnar. Annar flugmaður sem var um borð lifði af.Rannsóknarnefnd samgönguslysa sendi í október frá sér bráðabirgðaskýrslu um flugslysið sem varð á akstursbraut Bílaklúbbs Akureyrar mánudaginn 5. ágúst.„Þegar flugvélin nálgaðist akstursíþróttabrautina í vinstri beygju, missti hún hæð og vinstri vængur hennar snerti jörð við hægri hlið akstursíþróttabrautarinnar með þeim afleiðingum að hún brotlenti,“ segir í skýrslu rannsóknarnefndarinnar sem kveður frekari rannsókn munu beinast að því hvers vegna flugvélin missti hæð.Mikael segir þessa ályktun nefndarinnar hvorki ríma við frásögn sjónarvotta né myndbandsupptökur af slysinu.„Eftir því sem kunnáttumenn segja mér er flugvélin að fljúga, hún er ekki að missa hæð heldur lækkar flugið í krappri beygju. Rannsókn á slysum er fyrst og fremst til að komast að því hvað gerðist og að fyrirbyggja að slíkt eigi sér stað aftur. Til þess þarf skýrslan að vera rétt,“ segir Mikael.Aðflugið og brotlendingin á mynd

Fréttablaðið hefur myndbandsupptökurnar sem Mikael nefnir undir höndum. Þær eru hluti gagna sem safnað hefur verið fyrir aðstandendur Péturs. Meðal annars er um að ræða myndskeið úr tveimur myndavélum á þaki bíls sem var um það bil verið að ræsa í tímatöku þegar sjúkraflugvélin kom á mjög miklum hraða inn yfir brautina í krappri beygju. Linsur beggja myndavélanna eru 120 gráður og því er sjónarhornið vítt.Virðist af þessum myndskeiðunum að flugvélin sé ekki að „missa hæð“ í venjulegum skilningi þess orðs. Mikael bendir þess utan á frásögn sjónarvotta við golfvöllinn og hesthúsahverfi sem vélinni var flogið yfir suðaustan við akstursbrautina og á framburð sjónarvotta á brautinni sjálfri.Kristján Skjóldal, sem staddur var við þann brautarenda sem flugvélin kom yfir og var fyrstur að flakinu, segist hafa séð vélina koma yfir hesthúsahverfið suðaustur af akstursbrautinni. „Mér fannst hann vera ískyggilega lágt og sagði við strákana að þetta væri bannað,“ segir Kristján sem kveður vélina síðan hafa tekið krappa beygju að akstursbrautinni. „Hún keyrir sig þá bara niður og hann nær ekki að gera neitt.“Geirþrúður Alfreðsdóttir, formaður Rannsóknarnefndar samgönguslysa, segir merkingu hugtaksins að „missa hæð“ vera þá að „flugvélin lækki flugið“. Hvorki Geirþrúður né framkvæmdastjóri nefndarinnar vilja svara frekari spurningum um málið.Flugstjórinn var í bílaklúbbnum

„Flugstjórinn var gjaldkeri Bílaklúbbs Akureyrar og hann var búinn að boða komu sína á keppnisstaðinn eftir flugið. Hann flaug lágt meðfram fjallinu, líklega til þess að ekki sæist til hans fyrr en vélin myndi birtast allt í einu. Beygjan yfir hesthúsahverfinu að brautinni var alltof skörp og halli flugvélarinnar um 70 gráður,“ segir Mikael.Vélin var að snúa aftur til heimahafnar á Akureyri eftir að hafa sótt sjúkling á Hornafjörð og flutt til Reykjavíkur. Um tveimur mínútum fyrir slysið óskuðu flugmennirnir eftir og fengu heimild flugumferðarstjóra á Akureyrarflugvelli til að taka einn útsýnishring yfir bæinn fyrir lendingu. Lágflugið sem þeir reyndu síðan yfir akstursbrautinni er ekki heimilt því samkvæmt reglum má ekki fljúga neðar en þrjú hundruð metra yfir slíkum stöðum.Í bráðabirgðaskýrslu Rannsóknarnefndar samgönguslysa segir að flugið hafi verið „flutningaflug eftir sjúkraflug“. Þetta telur Mikael orka tvímælis.„Sjúkraflugi Landhelgisgæslunnar lýkur til dæmis ekki fyrr en þyrla er lent aftur á Reykjavíkurflugvelli,“ segir Mikael. Pétur hafi verið í sjúkraflugi og því hafi ekki átt að ljúka fyrr en menn hefðu stigið niður fæti í heimahöfn. Pétur heitinn hafi enn verið á vakt, tilbúinn í næsta útkall. „Þetta er bara eitt dæmið um hluti í skýrslunni sem virðast rangir,“ segir hann.

Lögmaður barna sér ósamræmi

Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, lögmaður barna Péturs Tryggvasonar, segir nú til vandlegrar skoðunar að óska opinberrar rannsóknar á brotlendingunni og tildrögum hennar. Ákvörðun um slíka kröfu fari meðal annars eftir því hver næstu skref verða hjá Rannsóknarnefnd samgönguslysa.„Rannsóknarnefndin sendi frá sér bráðabirgðaskýrslu um málið í október. Ályktanir í skýrslunni um að flugvélin hafi „misst hæð“ stangast á við framburð vitna sem lágu fyrir hjá lögreglu strax daginn eftir slysið. Samkvæmt sjónarvottum missti vélin ekki hæð heldur var henni flogið allan tímann. Þarna er verulegt ósamræmi,“ segir Vilhjálmur.Flogið á ofsahraða

Þegar TF-MYX kom aðvífandi að akstursbrautinni var um það bil verið að ræsa tvo bíla í tímatöku fyrir spyrnukeppni. Vélinni var flogið nánast á hlið inn yfir brautina naumlega fram hjá klúbbhúsinu og áhorfendum þar til hún rak niður vinstri vænginn um sjötíu metra frá byggingunni. Við húsið og annars staðar við spyrnubrautina stóðu tugir áhorfenda sem fylgdust með flugvélinni snúast um sjálfa sig, splundrast og þeytast í eldhafi eftir brautinni. Vængir og stél brotnuðu frá skrokknum.Sumir viðstaddra brugðust hratt við og óku og hlupu fram hjá ýmsu braki úr flugvélinni þangað sem skrokkur hennar lá í tveimur hlutum í grasi aftan við brautarendann, um 350 metrum frá þeim stað sem vængurinn snerti fyrst jörðina. Í fremri hlutanum voru flugstjórinn sem lést og flugmaðurinn sem lifði af. Í aftari hlutanum var Pétur Tryggvason sjúkraflutningamaður.Varaði flugstjórann við

Flugmaðurinn sem lifði af, Axel Albert Jensen, hefur ekki viljað veita viðtöl. Í skýrslu Gústafs Antons Ingasonar lögreglufulltrúa segir hins vegar að Axel hafi verið með góðri meðvitund og vel áttaður eftir slysið. „Axel talaði um að honum hafi fundist að vélinni hafi verið flogið allt of lágt og að hann hafi haft orð á því við flugstjórann,“ segir í skýrslu Gústafs.Fjórir menn sem voru á golfvelli suðaustur af kappakstursbrautinni sáu til flugvélarinnar rétt fyrir brotlendinguna. Einn þeirra, Benedikt Guðni Gunnarsson, gaf sig fram og óskaði eftir að gefa skýrslu hjá lögreglu. Í skýrslu sem lögreglan gerði kemur að fram að Benedikt kveðst hafa tekið eftir flugvélinni koma eftir hlíðinni á töluverðri ferð. Henni virtist hafa verið gefið inn eldsneyti.„Benedikt sagði að vélin hafi alltaf verið að lækka sig og hún hafi haldið áfram hlíðina og svo í nánd, að hann heldur við húsnæði Vegagerðarinnar, þá stingi vélin sér upp á hlið alveg, það er að segja vængur beint upp og beint niður og hverfur svo á bak við hólinn,“ er haft eftir Benedikt, sem kvað þá félaga andartaki seinna hafa séð sprengingu og svartan reyk.„Benedikt sagði að þeim hafi fundist mjög skrítið hvernig vélin kom eftir hlíðinni á mikilli ferð og lækkaði sig,“ segir í skýrslunni. „Benedikt sagði aðspurður að vélin hafi alltaf verið á leiðinni niður.“Þess má geta að þegar TF-MYX flaug yfir hjá golfvellinum hringdu hjón sem þar voru stödd í Neyðarlínu til að láta vita af lágflugi.Horfir til almannahagsmuna

Aðspurður segir Mikael kröfu um rannsókn byggjast á hagsmunum tveggja barna sem Pétur skilur eftir sig og þeirri staðreynd að óheimilt sé að nota skýrslu Rannsóknarnefndar flugslysa í öðrum tilgangi en þeim sem tengist flugöryggi.„En það er stór þáttur í þessu líka að Pétur bróðir minn var að búa til viðbragðsáætlanir gagnvart slysum og óhöppum og það var ætlast til að það væri farið eftir þeim. Þarna virðist svo margt vera sem ekki passar varðandi slysið og umgjörðina alla,“ segir Mikael og nefnir meðal annars boðun björgunarmanna. „Það þýðir ekki að hafa nýjar og fínar viðbragðsskýrslur uppi í hillu og fara svo ekkert eftir þeim.“Þá segir Mikael að hafa verði í huga ríka almannahagsmuni þegar sjúkraflug sé annars vegar. Beina þurfi sjónum í opinberri rannsókn að rekstri Mýflugs á sjúkrafluginu og þætti eftirlitsaðila. „Það var svo margt sem var talið eðlilegt en á ekki heima í þessum bransa og á ekki að líðast. Sjúkraflug er dauðans alvara,“ segir hann.Kemur þér ekkert við

Eitt af því sem Mikael telur að þurfi að rannsaka er starfsumhverfi Mýflugs þar sem liðist hafi háttsemi eins og sú sem leiddi til slyssins á Akureyri.Í fréttatilkynningu Mýflugs skömmu eftir slysið sagði að félagið myndi gera eigin athugun á slysinu. „Unnið verður af heilum hug með rannsóknaraðilum auk eigin skoðunar. Í þeirri vinnu verður ekkert undan dregið,“ sagði í tilkynningunni.„Innanhússrannsóknir hjá okkur koma þér ekkert við, nákvæmlega ekki neitt,“ svarar Leifur Hallgrímsson, framkvæmdastjóri Mýflugs, spurður um gang þeirrar rannsóknar.Aðspurður hvort algengt hafi verið og þótt eðlilegt hjá Mýflugi að flugmenn í sjúkraflugi brygðu sér í útsýnisflug segist Leifur ekki tjái sig um það.„En ef þú hefur eitthvert vit á því sem þú ert að tala um þá átt þú að vita það, og þarft ekki að spyrja að því, að svoleiðis lagað er ekki samkvæmt stöðluðu verklagi,“ segir framkvæmdastjóri Mýflugs.

Tengd skjöl


Tengdar fréttir

Myndband af flugslysinu við Hlíðarfjallsveg

Fréttastofa 365 birtir nú í fyrsta sinn opinberlega myndband sem sýnir þegar TF-MYX sjúkraflugvél Mýflugs brotlendir á akstursíþróttabraut við Hlíðarfjallsveg á Akureyri hinn 5. ágúst 2013. Tveir létust í flugslysinu. Fréttastofan metur það svo að birting myndbandsins eigi erindi við almenning m.a vegna forvarnar- og upplýsingagildis.

„Beygjan að brautinni var alltof skörp“

Bróðir Péturs Tryggvasonar sem fórst í flugslysi á Akureyri í ágúst segir kröfu um rannsókn byggjast á hagsmunum tveggja barna sem Pétur skilur eftir sig.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.