Helena Costa, sem ráðin var þjálfari Clermont Foot í frönsku 2. deildinni í vor, hefur sagt upp störfum hjá félaginu áður en hún náði að stýra því í einum einasta leik.
Costa var fyrsta konan sem ráðin var þjálfari karlaliðs í efstu tveimur deildum stærstu fimm deilda Evrópu, en yfir 100 fréttamenn sóttu fundinn þegar hún var kynnt til leiks.
Þessi 36 ára gamla portúgalska kona var áður njósnari Celtic í Skotlandi, þjálfari unglingsliðs Benfica og einnig þjálfari katarska kvennalandsliðsins.
Costa gaf ekki upp ástæðu fyrir uppsögninni heldur sagði: „Ég er leið yfir því að þessi staða hafi komið upp. Ég vil þakka öllum þeim sem studdu mig og er þeim þakklát.“
Ákvörðun Costa kom félaginu sjálfu í opna skjöldu en forráðamenn þess sögðu hana hafa komið á óvart.
Fyrsta konan hættir áður en bolta er sparkað

Tengdar fréttir

Ekki hrædd við að þjálfa karla
Engin kona hefur tekið að sér stærra starf í karlaboltanum en Helena Costa. Hún segist hvergi vera banginn.