Fótbolti

Ísland ekki lengur með besta landsliðið á Norðurlöndum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson í tapleiknum á móti Tékkum.
Gylfi Þór Sigurðsson í tapleiknum á móti Tékkum. Vísir/Daníel
Íslenska fótboltalandsliðið var ekki með besta landslið Norðurlanda nema í rúman mánuð en þetta varð ljóst eftir að FIFA, Alþjóðaknattspyrnusambandið, gaf út nýjan styrkleikalista í morgun.

Íslenska landsliðið féll um fimm sæti og er nú í 33. sætinu. Danir nýttu sér tækifærið og komust upp fyrir Ísland en Íslendingar geta glaðst yfir því að vera enn ofar en Svíar. Danir eru í 30. sæti og Svíar eru þriðja besta Norðurlandaþjóðin í 43. sæti.

Íslenska landsliðið tapaði á móti bæði Belgíu (1-3) og Tékklandi (1-2) í leikjum sínum frá því að síðasti listi var gefinn út. Belgar eru í 4. sæti listans og Tékkar eru í 17. sæti.

Ísland hefur aldrei verið ofar en á októberlistanum (28. sæti) en liðið fór þá upp um sex sæti. Danir voru fjórum sætum á eftir Íslandi í október.

Þjóðverjar eru með besta fótboltalandslið heims, Argentínumenn eru í 2. sæti og Kólumbíumenn eru í því þriðja. Brasilía er nú með sjötta besta landsliðið á eftir nágrönnunum Belgíu (4. sæti) og Hollandi (5. sæti). Enska landsliðið er í 13. sæti listans og Spánverjar eru í 9. sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×