Erlent

Endurvekja kalda stríðs flug yfir Atlantshafið

Samúel Karl Ólason skrifar
Rússnesk TU-95 sprengjuflugvél á flugi nærri Japan.
Rússnesk TU-95 sprengjuflugvél á flugi nærri Japan. Vísir/AFP
Sergei Shoigu, Varnarmálaráðherra Rússlands, tilkynnti í dag að yfirvöld þar í landi hygðust ætla að láta langdrægar sprengjuflugvélar fljúga reglulega um Karíbahafið, aftur. Flugin voru lögð af við enda kalda stríðsins.

„Við núverandi kringumstæður verðum við að tryggja viðveru herafla í Vestur-Atlantshafi og austurhluta Kyrrahafsins, Karíbahafinu og Mexíkóflóa,“ sagði Shoigu. Fyrr á árinu sagði hann að Rússar ætluðu að koma upp herstöðvum í öðrum ríkjum og þar á meðal Kúbu, Venesúela og Níkaragva.

BBC segir að vestrænir greinendur hafi bent á að eftir aukna spennu vegna Úkraínudeilunnar hafi Rússar í meiri mæli beitt kalda-stríðsbrögðum til að kanna varnir NATÓ-ríkja.



Spenna á milli NATÓ og Rússlands hefur aukist mikið vegna ástandsins í Úkraínu. Í dag sagði NATÓ að hermenn og vígbúnaður hefðu farið yfir landamæri Úkraínu í miklum mæli síðustu daga.

Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna kom saman í dag, eftir að SÞ vöruðu við því að mikil átök gætu hafist að nýju í Austur-Úkraínu. Sendiherra Bandaríkjanna, Samantha Powers, sagði að Rússar töluðu um frið, en kynntu undir átök. Erindreki Rússlands varaði hins vegar við því að fundir öryggisráðsins yrðu að farsa. Hann sagði meinta herflutninga Rússa, vera eintóman áróður.

Sendiherra Úkraínu sagði þó að eina ástæða þess að átök væru ekki hafin aftur, væri sjálfsstjórn yfirvalda í Kænugarði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×