Fótbolti

Alfreð um Moyes: Notar mig ef það er eitthvað vit í kallinum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Brussel skrifar
Alfreð Finnbogason skoraði mark Íslands í 3-1 tapi gegn Belgíu í vináttulandsleik ytra í kvöld.

„Það er alltaf gott að skora en leiðinlegt að tapa. Maður tekur því það jákvæða úr þessu,“ sagði Alfreð en viðtalið má sjá í heild sinni hér fyrir ofan.

Hann var ánægður með frammistöðu íslensku leikmannanna gegn þessu sterka liði Belgíu.

„Sérstaklega í byrjun seinni hálfleiks og við áttum einnig góða kafla í fyrri hálfleik. Það er erfitt að sækja fram þegar við liggjum aftarlega en ef einhver annar en Courtois hefði verið í markinu hjá þeim hefðum við skorað 2-3 mörk til viðbótar.“

Alfreð óttast ekki að tapið hafi dregið úr sjálfstrausti íslenska landsliðsins. „Alls ekki. Ég held að þetta hafi verið tækifæri fyrir aðra en byrjunarliðsmenn að spila enda viljum við allir færa okkur nær byrjunarliðinu. Þetta var því góð prófraun gegn mjög sterku liði.“

Hann leikur með Real Sociedad á Spáni sem tilkynnti í dag að félagið hefði ráðið David Moyes, fyrrum stjóra Everton og Manchester United.

„Mér líst vel á hann þó ég þekki lítið til hans persónulega. Ég held að þú komist ekki upp með að vinna jafn lengi í ensku úrvalsdeildinni og hann nema að það sé eitthvað varið í þig.“

„Ég er því spenntur fyrir því að byrja að vinna með honum í næstu viku.“

Og hann vonast auðvitað til að verða fastamaður undir stjórn Moyes. „Ef það er eitthvað vit í kallinum þá mun hann nota mig,“ sagði hann í léttum dúr.


Tengdar fréttir

Moyes var ráðinn þjálfari Alfreðs í kvöld

David Moyes, fyrrum knattspyrnustjóri Manchester United, var í kvöld ráðinn nýr þjálfari Alfreðs Finnbogasonar og félaga í spænska úrvalsdeildarliðinu Real Sociedad. Þetta kemur fram í miðlum á Spáni og á Englandi.

Alfreð: Moyes örugglega góður kostur

Það hefur á ýmsu gengið hjá Real Sociedad, liði Alfreðs Finnbogasonar á Spáni. Jagoba Arrasate var rekinn úr stöðu knattspyrnustjóra á dögunum og var David Moyes, fyrrum stjóri Man. Utd, ráðinn í starfið í gærkvöldi. Það lá þó ekki fyrir er Fréttablaðið hitti á Alfreð í gær.

Lars: Meiri samkeppni í liðinu

Landsliðsþjálfarinn fagnar meiri breidd í íslenska liðinu eftir góða frammistöðu í Brussel.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×