Fótbolti

Aron Einar: Getum gengið stoltir af velli

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Brussel skrifar
„Það er margt jákvætt sem við getum tekið úr þessum leik,“ sagði landsliðsfyrirliðinn Aron Einar Gunnarsson við Vísi eftir 3-1 tapið gegn Belgum í vináttulandsleiknum í Brussel í gærkvöldi.

„Þetta er virkilega sterkt lið sem við vorum að spila við og það er með leikmenn sem geta breytt leikjum. Það er alltaf leiðinlegt að tapa en við getum gengið stoltir af velli. Við gerðum níu breytingar fyrir leikinn en sýndum að við erum komnir með fína breidd,“ sagði Aron Einar.

Eins og fyrirliðinn segir gerðu Lars og Heimir miklar breytingar á liðinu og fengu því margir tækifæri til að sanna sig og reyna að koma sér inn í byrjunarliðið sem hefur verið óbreytt í síðustu þremur leikjum.

„Þeir sem hafa fengið minna að spila fengu tækifæri í þessum leik. Þeir vildu sýna sig og sanna, en auðvitað er erfitt að breyta liði sem er búið að vinna þrjá leiki í röð. Það voru samt nokkrir sem spiluðu vel í þessum leik,“ sagði Aron Einar, en hefur þetta tap áhrif á sjálfstraustið í liðinu?

„Nei. Það er alltaf leiðinlegt að tapa en þetta dregur ekkert úr okkur. Það er ekkert að því að tapa fyrir Belgum á útivelli.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×