Erlent

Ráðherra að athlægi vegna grín-fréttar

Hanna Rún Sverrisdóttir skrifar
Grín-frétt Daily Current um að 37 manns hefðu látist í Colorado vakti mikla athygli.
Grín-frétt Daily Current um að 37 manns hefðu látist í Colorado vakti mikla athygli. mynd/AFP
Sænski dómsmálaráðherrann, Beatrice Ask, varð að athlægi þegar hún deildi grín-frétt á Facebook-síðu sinni um að 37 manns hefðu látið lífið á fyrsta deginum sem sala á kannbis var leyfð í Colorado fylki í Bandaríkjunum. Guardian sagði frá.

Ráðherrann var ekki sá eini sem lét gabbast en fréttin var mikið lesin og deilt víða. Einhverjir fréttamiðlar tóku hana meira að segja upp sem raunverulega frétt.

Við fréttina skrifaði ráðherrann að hún hefði ekkert þol fyrir fíkniefnum. „Heimskulegt og sorglegt. Mitt fyrsta verk sem ungur pólitíkus var að berjast gegn fíkniefnum. Skoðun mín hefur ekkert breyst síðan.“

Athugasemdin var ekki lengi að fara á flug á samfélagsmiðlum. Talsmaður ráðherrans segir að hún hafi vitað að fréttin var ekki sönn. Með innlegginu hafi hún ætlað að gagnrýna vefsíðuna sem setti fréttina inn fyrir að grínast með jafn alvarleg málefni, en hún hafi verið misskilin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×