Erlent

Hart barist í borginni Fallúdja

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Herská samtök heimamanna í Fallúdja hafa tekið höndum saman við stjórnarherinn um að hrekja liðsmenn Al Kaída frá borginni.
Herská samtök heimamanna í Fallúdja hafa tekið höndum saman við stjórnarherinn um að hrekja liðsmenn Al Kaída frá borginni. Nordicphotos/AFP
Núrí al Malíki, forsætisráðherra Íraks, gaf engar leiðbeiningar um það hvernig íbúar í Fallúdja ættu að fara að því að hrekja burt frá borginni liðsmenn herskárra samtaka, sem sjálf segjast vera í tengslum við Al-Kaída-samtökin.

Samtökin, sem nefnast Íslamskt ríki í Írak og Austurlöndum nær, náðu í síðustu viku borginni á sitt vald. Einnig náðu þau borginni Ramadí á sitt vald að miklum hluta, en báðar þessar borgir eru í Anbar-héraði, sem er vestan við höfuðborgina Bagdad og stærsta hérað landsins.

Stjórnarherinn umkringdi Fallúdja í gær og var reiknað með hörðum átökum. Tugir fjölskyldna flúðu frá borginni en al Malíki hvatti hermenn stjórnarhersins eindregið til þess að hlífa íbúðarhverfum borgarinnar.

Stjórnarherinn hefur undanfarna daga reynt að hrekja uppreisnarmennina frá Fallúdja. Átök á sunnudaginn milli uppreisnarmanna annars vegar og stjórnarhersins og vopnaðra heimavarnarsveita kostuðu að minnsta kosti 34 manns lífið, þar á meðal að minnsta kosti tíu almenna borgara.

Þessi sömu herskáu samtök hafa barist í Sýrlandi gegn stjórnarher Bashars al Assad forseta. Jafnframt hefur andstaðan við stjórn al Malíkis magnast innan Íraks, ekki síst vegna þess að al Malíki er sjía-múslimi og hefur ekki leyft súnní-múslimum að hafa mikil ítök í stjórn landsins.

Uppreisnarmennirnir eru súnní-múslimar, ýmist aðkomumenn frá öðrum löndum, sem eru uppistaðan í Íslömsku ríki í Írak og Austurlöndum nær, eða heimamenn sem til þessa hafa verið í andstöðu við stjórn al Malíkis en hafa nú á síðustu dögum tekið höndum saman við stjórnarherinn um að hrekja aðkomumennina frá Fallúdja.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×