Innlent

Fagranesinu fræga siglt í San Francisco

Kristján Már Unnarsson skrifar
Gamla Fagranes var í fréttum CBS í San Francisco í vikunni. Skipsheitið er nú skráð Maritol Reykjavik.
Gamla Fagranes var í fréttum CBS í San Francisco í vikunni. Skipsheitið er nú skráð Maritol Reykjavik.
Síðasta ferjan sem þjónaði sem Djúpbátur á Ísafjarðardjúpi sigldi í fyrsta sinn í rúman áratug í vikunni, að þessu sinni undir vökulum augum sjónvarpsmyndavéla um höfnina í San Francisco í Kaliforníu. Gamla Fagranesið er nefnilega orðið frægt í Ameríku en siglingin var stutt að þessu sinni, aðeins um 45 mínútur, og hafði þann eina tilgang að sýna hafnaryfirvöldum að skipið væri ennþá sjóhæft.

Eigendur skipsins höfðu um árabil staðið í deilum við hafnaryfirvöld um legu skipsins í höfninni en þar var það notað fyrst sem lúxusheimili og síðar skrifstofur undir frumkvöðlastarfsemi. Þannig gátu eigendur fyrir tiltölulega lág hafnargjöld, um 180 þúsund krónur á mánuði, notað ferjuna sem stærðar húsnæði í hjarta San Francisco.

Í haust sagði Vísir frétt af því að hafnaryfirvöld hefðu krafist þess að gamla Fagranesið viki úr höfninni enda segðu reglur að þar mættu aðeins liggja skip sem væru haffær. Eigendur völdu að lagfæra skipið fyrir tugþúsundir dollara svo það gæti siglt á ný, en bara til að fá stimpilinn, en það var svo strax bundið aftur við bryggjuna.

Sjónvarpsstöðin CBS sýndi frá siglingunni og hafði áður sýnt frétt um undirbúning hennar. En það eru ekki bara fjölmiðlar í Kaliforníu sem fjallað hafa um skrautlega sögu gamla Fagraness. Það hefur líka komist á síður New York Times, Forbes og Wall Street Journal.

Hér á Íslandi fékk það mesta fréttaumfjöllun þegar það strandaði við Æðey með 230 manns um borð í Jónsmessuferð á laugardagskvöldi sumarið 1996. Sagan í kringum það strand virðist ekki síður hafa verið skrautleg.


Tengdar fréttir

Gamla Fagranes veldur deilum í San Francisco

Gamla Fagranes, síðasta ferjan sem gegndi hlutverki Djúpbáts á Ísafjarðardjúpi, er nú tilefni deilna og blaðaskrifa í San Francisco í Kaliforníu eftir að hafnaryfirvöld kröfðust þess að skipið yrði fjarlægt úr höfninni fyrir næstu mánaðamót




Fleiri fréttir

Sjá meira


×