Innlent

Vantar peninga fyrir loðnuleiðangri í haust

Jón Sigurður Eyjólfsson skrifar
Sigurður Ingi Jóhannsson sjávarútvegsráðherra segist hafa reynt allt til að tryggja fjármuni fyrir starfsemi Hafró.
Sigurður Ingi Jóhannsson sjávarútvegsráðherra segist hafa reynt allt til að tryggja fjármuni fyrir starfsemi Hafró. Fréttablaðið/Pjetur
Útlit er fyrir að ekki fáist fjármunir til að standa undir loðnuleiðangri Hafrannsóknastofnunar í haust.

Útvegsmenn hafa bent á að slík vanræksla geti kostað þjóðarbúið gríðarlega fjármuni því niðurstöður slíkrar rannsóknar séu mikilvægar eigi loðnuvertíð að heppnast.

Jóhann Sigurjónsson, forstjóri Hafró, sagði í síðustu viku að stofnunin hefði ekki bolmagn til þess arna nema ef eitthvað nýtt kæmi til.

Sigurður Ingi Jóhannsson sjávarútvegsráðherra segir í samtali við Fréttablaðið að hann hafi beitt sér eins og mögulegt er til að tryggja fjármuni til starfsemi Hafrannsóknastofnunar. „En ráðuneytið ræður ekki yfir neinum sjóðum til að grípa til og fjárveitingavaldið er ekki á hendi framkvæmdarvaldsins,“ segir hann. Þeir tvímenningar munu fara yfir þessi mál í næstu viku.

Ráðherrann er nokkuð hnugginn vegna ástands stofnunarinnar.

„Það er tilefni til þess að hafa áhyggjur af fjárhagsstöðu stofnunarinnar,“ segir hann. „Og mikilvægt að fjármagn verði tryggt til grunnrannsókna. Það veltur á fjárlaganefnd og Alþingi hvort menn eru tilbúnir að bæta stöðu Hafrannsóknastofnunar.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×