Ekvador náði forystunni á 22. mínútu. Fyrirliðinn Antonio Valencia náði þá í aukaspyrnu vinstra megin við vítateiginn sem Walter Ayovi tók. Hann sendi boltann á framherjann Enner Valencia sem skallaði boltann framhjá Diego Benaglio í marki Sviss. Valencia hefur nú skorað í fimm síðustu landsleikjum sem hann hefur spilað.
Svissneska liðið var meira með boltann í fyrri hálfleik og sótti meira en tókst ekki að sigrast á ekvadorsku vörninni. Staðan var 1-0 í hálfleik.
Svisslendingar mættu ákveðnir til leiks í seinni hálfleik og jöfnuðu metin strax á 47. mínútu þegar varamaðurinn Admir Mehmedi skallaði hornspyrnu Ricardos Rodriguez í netið.
Það var síðan annar varamaður, Haris Seferovic, sem tryggði Sviss sigur með marki í uppbótartíma eftir stoðsendingu frá Rodriguez.
Klukkan 19:00 mætast svo Hondúras og Frakkland í seinni leik dagsins í E-riðli.




