Erlent

Segir einn eftirlýstasta nasistann hafa látist í Sýrlandi árið 2010

Atli Ísleifsson skrifar
Alois Brunner árið 1940. Hann starfaði sem ráðgjafi Sýrlandsforseta á árunum 1971 til 2000.
Alois Brunner árið 1940. Hann starfaði sem ráðgjafi Sýrlandsforseta á árunum 1971 til 2000. Vísir/AFP
Ísraelsmaðurinn Efraim Zuroff, sem einbeitt sér hefur að því að hafa uppi á eftirlifandi nasistum þriðja ríkisins, segist „99 prósent viss“ um að Alois Brunner – einn eftirlýstasti nasisti síðustu áratuga – hafi látist í Sýrlandi fyrir fjórum árum síðan.

„Við erum ekki með neinar réttarlæknisfræðilegar sannanir, en við erum viss um þetta,“ segir Zuroff í samtali við BBC.

Brunner var höfuðsmaður í SS-sveitunum og á að hafa skipulagt flutning rúmlega 128 þúsund gyðinga til einangrunar- og útrýmingarbúða í seinni heimsstyrjöldinni.

Upplýsingarnar um dauða Brunner koma frá þýskum fyrrverandi leyniþjónustumanni sem starfað hefur í Mið-Austurlöndum. Að hans sögn var Brunner jarðsettur á óþekktum stað í Damaskus, höfuðborg Sýrlands, árið 2010.

Zuroff starfar sem forstöðumaðurSimon Wiesenthal-stofnunarinnar í Jerúsalem og hefur leitt leitina að eftirlifandi stríðsglæpamönnum nasista síðustu ár. Hann telur upplýsingarnar um Brunner vera trúverðugar. „Hann gegndi lykilhlutverki í framkvæmd „endanlegrar lausnar“ Hitlers, að myrða gyðinga. Hann var skrímsli,“ segir Zuroff.

Í frétt BBC segir að Brunner hafi flúið til Sýrlands á sjötta áratugnum og starfað sem ráðgjafi Hafez al-Assad Sýrlandsforseta á árunum 1971 til 2000. Að sögn á Brunner að hafa lifað af tvær morðtilraunir ísraelsku leyniþjónustunnar, fyrst árið 1961 og svo aftur 1980.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×